Fara í efni

HVERS VEGNA LEYFA FJÖLMIÐLAR RÁÐHERRUM AÐ RUGLA?

Það er hárrétt hjá þér Ögmundur að óskandi væri að menn hættu að stinga höfðinu í sandinn varðandi stóriðjustefnuna. Að sjálfsögðu er hún bölvaldurinn í íslensku efnahagslífi og ekki síður sá aðili sem rekur þessa stefnu. Það er hrikalegt að hlusta á fjármálaráðherrann og forsætisráðherrann koma fram í fjölmiðlum og segja að það komi þeim á óvart að alþjóðlegt matsfyrirtæki vari við áframhaldandi þenslu í íslensku efnahagslífi. Við þessu hefur verið varað – ekki síst af VG – mánuðum og árum saman. Hvers vegna láta fjölmiðlar þessa menn komast upp með þetta rugl? Að ógleymdum iðnaðarráðherranum sem segir að ríkisstjórnin sé fyrir löngu hætt að reka stóriðjustefnu. Þetta segir þessi ráðherra, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins, á sama tíma og ríkisstjórnin greiðir götu stórðjunnar sem aldrei fyrr!
Haffi