HVERS VEGNA ORKUSTEFNA ESB HENTAR EKKI HÉR
03.09.2019
Sæll, Ögmundur.
Ljómandi góð frammistaða hjá þér í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Andstæðingurinn hafði helzt þetta að segja:
- Neytendur hagnast á samkeppni, sem komið var á með uppskiptingu orkugeirans.
- Andstæðingar OP#3 tala helzt um það, sem ekki er í OP#3.
Þessu er til að svara, að:
- Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við HÍ, sýndi fram á það í skýrslu OO, ágúst 2019, að raunverðhækkun rafmagns til íslenzkra fjölskyldna á tímabilinu 2003-2018 væri 7 % - 8 %, þegar allt er meðtalið, nema opinberar álögur. Á þessu tímabili lækkuðu skuldir orkufyrirtækjanna í heild. Þar sem fjármagnskostnaður vegur langmest í útgjöldum orkufyrirtækja, hefði átt að verða raunverðslækkun á þessu tímabili um a.m.k. 10 % (áætlun BJo). Hún varð hins vegar ekki vegna þess, að hagkvæmni stærðarinnar voru rýrð. Áður rann fé frá tekjum virkjana Landsvirkjunar til uppbyggingar flutningskerfisins, en nú þarf Landsnet að taka lán fyrir fjárfestingum. 1. Og 2. Orkupakkinn voru fjárhagsbaggi á íslenzkum neytendum, þótt þeir kunni að hafa gagnazt neytendum á þéttbýlum svæðum Evrópu.
- Meginbreytingin með OP#3 er, að með honum kemur yfirþjóðlegt vald til sögunnar með landsreglara á vegum ACER í hverju landi. Landsreglarinn fær tvenns konar meginhlutverk, þ.e. að aðlaga markaðinn að innri markaði ESB með því að koma á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar í stað orkulindastýringar, sem LV stundar nú, og að afnema allar hindranir í vegi tenginga landsins við innri markaðinn. Til þess mun hann beita reglusetningarvaldi sínu og dómstólaleiðinni.
Þeim, sem óska frekari fróðleiks um álitamál OP#3, ráðlegg ég að lesa skýrslu Orkunnar okkar. Þar er t.d. útlistun á því, sem felst í að setja raforkuviðskiptin í Orkukauphöll að hætti ESB, en það er skylda samkvæmt OP#3 (valfrjálst í OP#2). Upp úr stendur, að markaðskerfi ESB hentar engan veginn við íslenzkar aðstæður. Það er hægt að sníða af því agnúana með orkulindastýringu, en Landsreglarinn mun sennilega banna hana. Allt mun þetta nú koma í ljós.
Bjarni Jónsson