Í FAÐMI FJALLA-DROTTNINGAR
Í umræðum um möguleika Huangs Nubo á því að eignast jörðina Grímsstaði á Fjöllum virðist sem margir þori ekki að nefna og taka með í reikninginn þær tilfinningar sem samt hljóta að fylgja þessu máli og því fordæmi sem það gefur: kvíða og smán yfir því að útlendingar eignist og ráðstafi hlutum fósturjarðarinnar.
Þegar kaupsýslumaðurinn er nefndur er það gjarnan með óttablandinni virðingu af því að hann er ljóðskáld og á íslenska vini, og er þar að auki frá hinu fjarlæga og dulúðuga austri og ætlar kannski bara að gera lítilli þjóð vinar síns einhvern greiða. En mér sýnist hann ekki skilja hvaða sess íslensk víðerni hafa haft í sál Íslendingsins. Enda varla slíks von. Hann hlustar á kreppusönginn og dregur sínar ályktanir.
Jafnvel þó að sumir Íslendingar geti ekki beðið eftir að athafnamenn fari að spranga með sitt skipulag og sín graftartól um víðernin á Fjöllum þá vona ég að þau stjórnvöld sem nú sitja flýti ekki fyrir þeirri stundu.
Við öskurkórinn: ,,Sjúkleg tortryggni í garð útlendinga", ,,Þjóðremba", ,,Kommúnisti" segi ég: ,,Nei, sjálfsvirðing, það á líka að standa með tilfinningum sínum." Verðmæti eins og þau sem um ræðir í náttúru Grímsstaða eru fágæt á heimsvísu en því vilja menn sem sé gleyma þegar nefndir eru ,,allir peningarnir".
Ég óska þess að geta áfram farið um alla hluta landsins míns með þá vissu að þetta sé landið okkar Íslendinga og ég óska þess að ég geti áfram hugsað til kyrrlátra víðernanna á Fjöllum og vita þau frjáls í faðmi Fjalladrottningar.
Asdís Kristinsdóttir