Fara í efni

Í SENN SAMMÁLA OG REIÐUR

Sæll Ögmundur.
Þú mátt eiga það að þú kannt að hleypa upp fólki. Og er nýjasta ákvörðunin ekki sú fyrsta og væntanlega ekki sú seinasta til að valda fjaðrafoki. Að mörgu leyti er það vel. Við hverja einustu umdeildu ákvörðun þingmanns Vg þarf kjósandi og stuðningsmenn flokksins að hugsa, er þessi ákvörðun rétt eða er hún röng? Í nýjasta málinu, þar sem þú lýsir því yfir að þú styður tillögu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að Alþingi falli frá ákærum á Geir Haarde veldur mér miklum heilabrotum. Í aðra röndina er ég þér sammála út í eitt en í hina er ég þér mjög reiður. Sé þessi ákvörðun einungis byggð á rökhyggju þar sem þú lýsir því yfir að uppgjörið við efnahagshrunið 2008 eigi að vera umfangsmeira en ákæra á einn mann, þá er að mörgu leyti hægt að una við hana.
Hinsvegar sé ákvörðunin byggð á annaðhvort tilfinningalegum vangaveltum eða klækjapólitík í anda Gamla-Íslands þá er ákvörðun þín alvond og þarftu þá að margra mati að hugsa hvort þér er enn stætt sem þingmanni. Mín skoðun hefur alltaf verið söm. Strax um vorið 2009, eftir alþingiskosningarnar þá hugsaði ég með mér að einn þáttur uppgjörsins hefði náð í gegn, Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Þó fannst mér það ekki nóg. Mér fannst að ráðherrar fyrri ríkisstjórna, þ.m.t. ráðherrar Framsóknarflokksins þyrftu að svara fyrir sig fyrir dómsstólum. Fyrning manna kom þó í veg fyrir allt slíkt. Þó var einn ákærður og hinir þrír hefðu átt að fylgja með. Og það fannst mér heldur ekki vera nóg. Efnahagshrunið var svo gríðarlega áhrifamikið fyrir samfélagið að mér fannst og finnst enn allt kerfið þurfa að endurskoða sjálfa sig og hefur sú vinna ekki enn farið í gegn. Mér fannst að bankarnir þyrftu að vinna öðruvísi, mér fannst að embættismannakerfið þyrfti ríkara eftirlit og minni áhrif. Margir telja einmitt þetta. Ég skil raunar ekki hvernig þú komst að þessari niðurstöðu - að taka þennan þátt út úr uppgjöri hrunsins. En þú stendur væntanlega við ákvörðun þína og tekur afleiðingum hennar. Spennandi verður að sjá hverjar þær verða.
Baráttukveðjur,
Ágúst Valves Jóhannesson

Heill og sæll. Ég skrifa upp á meginmálið hjá þér: Þetta er ekkert uppgjör við hrunið. Víðs fjarri! Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum í viðtölum og blaðagreinum sem er að finna hér á síðunni. Og eitt vil ég segja í fullri einlgægni: Hér er engin klækjapólitík á ferðinni af minni hálfu! Í hverju ættu þeir klækir að vera fólgnir?
Kv.,
Ögmundur