Fara í efni

ÍSLAND Í KJARNORKUKLÚBBINN?

Stóra leyndarmálið við kjarnorku er þetta: Kjarnorkusprengjur eru einfaldar. Í Evrópu er að finna ótal ríki sem hafa fyllilega tæknigetuna til þess að smíða kjarnorkusprengjur í tiltölulega stórum stíl. Gleymum því ekki að Suður-Afríka átti svoleiðis undir lok aðskilnaðartímabilsins! Það sem er erfitt er að útvega hráefnin án þess að einhver verði var við það. Ég skal taka fyllilega undir það með þér, Ögmundur, að hræsni stórveldanna í að banna t.a.m. Írönum að koma sér upp kjarnorkusprengjum á meðan þau sjálf fá óáreitt að smíða fleiri. En mig grunar að það sé ekki það sem reitir Írani mest til reiði. Tvískinnungurinn í því að láta Ísrael í friði með sitt kjarnorkuvopnabúr en hamast í Íran fyrir að reyna að koma slíku upp er yfirþyrmandi. Og svo má ekki gleyma geislavirku skotfærunum sem Bandaríkjamenn nota nú í Írak. Hvað varðar áhrif á mannlífið gæti ég trúað að Írakar hefðu verið betur staddir ef kjarnorkusprengju hefði verið varpað á Baghdad! Evrópa án kjarnorkusprengja er verðugt markmið. En ef hún er markmið út af heimsöryggi, held ég að það séu fleiri atriði til að hugleiða. Og ef við hér á litla Íslandi erum of áhrifalítil til að fá nokkuð í þessu gert, eigum við þá ekki bara að skella okkur í kjarnorkuklúbbinn og láta í okkur heyrast? Ég hugsa að það væri ekki mikið dýrara ævintýri en Kárahnjúkar.
Herbert Snorrason