Fara í efni

ÍTALÍUÞANKAR

Á þriggja ára fresti efna forsvarsmenn norrænu verkalýðshreyfingarinnar til ráðstefnu þar sem þeir bera saman bækur sínar og leggja á ráðin um baráttu á komandi árum fyrir sameiginlegum málefnum. Iðulega eru þessar ráðstefnur haldnar í orlofsbyggðum einhverra norrænu verkalýðssamtakanna. Að þessu sinni fer ráðstefnan fram í orlofsbyggðum sænsku verkalýðshreyfingarinnar, LO og TCO, systursamtaka ASÍ og BSRB, syðst í Toscana héraði á Ítalíu. Ákvað ég að grípa tækifærið og nota nokkra daga fyrir ráðstefnuna til að heimsækja sögufræga staði á Ítalíu.

Hver vill búa í Feneyjum?

Fyrst bar okkur hjón niður í Feneyjum. Þangað komum við laust fyrir miðnætti sunnudaginn, 17. september.
Í ferðabæklingi um Feneyjar gat að finna skemmtilega tilvitnun í sagnfæðinginn John Julius Norwich. Hann velti því fyrir sér hvernig í ósköpunum  gæti staðið á því að byggð varð yfirhöfuð til í Feneyjum. Varla hefði nokkur maður með réttu ráði viljað gera annað og meira en að byggja nema þá kannski eins og einn fiskimannakofa á fenjunum og sandeiðunum við Feneyjarlónið, svæði þar sem malarían herjaði. En John Julius Norwich spurði til að geta svarað. Og svar hans var eftirfarandi: "Þetta  myndu þeir einir gera sem áttu ekki annarra kosta völ."
Með þessari skemmtilegu framsetningu er sögð löng saga í stuttu máli.
Talið er að Feneyjar hafi upphaflega byggst fólki sem hraktist frá meginlandi Ítalíu vegna ofsókna, upphaflega undan Atla Húnakonungi um miðja fimmtu öld, síðan undan Gotum sem fóru með ofbeldi og hernaði um héruðin í grennd við Feneyjar, upp úr miðri 6.öld og fleiri herjandi þjóðflokka og  stríðsherra mætti nefna til sögunnar til þess að skýra til fulls ástæðu þess að þessi erfiðu malaríusvæði, sem þá voru, tóku að byggjast. Og nú er svo komið að í Feneyjum er að finna eina fegurstu og eftirsóknarverðustu borg heimsins
Enda þótt við þekkjum sögu Feneyja af sögubókum, hvílíkt stórveldi borgríkið varð (um 1400 voru íbúarnir orðnir um  200.000) og hve öflugt það var um aldir sem herveldi og verslunarveldi, sífellt í leit að nýjum verslunarleiðum og mörkuðum (þaðan lagði Feneyingurinn Marco Pólo upp í sínar fræknu Asíuferðir á seinni hluta 13. aldar) og þótt við þekkjum hvert framlag íbúa Feneyja hefur verið til menningar og lista – ekki síst tónlistarinnar þar sem Feneyingar stóðu framarlega auk þess sem mörg, ef ekki flest, helstu tónskáld Evrópu dvöldust þar um lengri eða skemmri tíma - á síðustu 20 árum 17. aldar voru fluttar 150 óperur í Feneyjum, þar af tuttugu nýjar -  þá er það einu sinni svo að maður þarf að koma á svæðið til þess að sögubókafróðleikurinn renni raunverulega upp fyrir manni!
Ekki verður sagt um Feneyjar að þaðan hafi "allar leiðir legið til Rómar". Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að lengi vel lágu tengsl Feneyja út á við til Konstantínópel fremur en til Rómar. Feneyjar heyrðu undir Bysansríki, aust-rómverska heimsveldið  - og einnig mynduðust síðar tengsl við hinn íslamska heim Tyrkjaveldis. Vegna viðskiptanna, sem Feneyjarbúar stunduðu af miklu kappi, urðu einnig til sterk tengsl norður á bóginn. Feneyjar urðu þannig snertiflötur á milli Vesturlanda og Austurlanda – hins kristna heims og hins íslamska þótt sjálfir væru Feneyingar enginn trúarlegur kokteill, um það bera allar kirkjurnar og kapellurnar í Feneyjum vitni.

Auðveldara að umbera sprengjuleit í Markúsarkirkjunni en á flugvöllum 
 
Markúsarkirkjan í Feneyjum er einhver íburðarmesta kirkja heimsbyggðarinnar, hvelfingin skrýdd skíra gulli auk litskrúðugra mosaikmynda sem tók 600 ár að fullgera! Við hugsuðum þegar við komum inn í kirkjuna eftir að allir töskuberar og  pokadýr í hópum höfðu verið látin afhenda öryggisvörðum sánkti Markúsar töskur sínar og poka – hugsanlegar sprengjuvörpur –– að sennilega væri þetta eina öryggisvarslan, sem auðvelt væri að umbera, því þegar allt kemur til alls er til nokkurs vinnandi að varðveitt verði, um ókomnar aldir, verkin sem þúsundþjalasmiðirnir skiluðu okkur með þrotlausri vinnu í sex hundruð ár!
Þótt öllum sé annt um líf sjálfra sín og annarra, gegnir allt öðru um öryggiseftirlitið sem Bush og félagar eru að innleiða í heiminum í því skálkaskjóli að eftir hryðjuverkin í New York og Washington 11. september árið 2001, verði ekki undan því vikist að skoða hvern einasta mann sem stígur upp í flugvél í heiminum og skrá hann í bak og fyrir. Svo er komið að naglaklippur eru taldar ógna öryggi mannkynsins og eigendur látnir láta þær af hendi umsvifalaust við brottför í flughöfnum heimsins ella verða kyrrsettir. En hvers vegna ekki leita á leikhúsgestum, bíógestum, strætisvagna- og rútuferðalöngum, öllum þeim sem fara inn í byggingar eða mannvirki sem opin eru almenningi? Staðreyndin er nefnilega sú að varla er að finna þá gerð almenningsfarartækja, eða samkomustaða sem ekki hafa einhvern tímann, einhvers staðar, verið sprengdir í loft upp, og iðulega hefur fjöldi fólks farist í slíkum árásum. Innst inni vita allir að þetta snýst ekki um öryggi borgaranna heldur um þau tæki, sem ráðandi öfl vilja fá í hendur til að öðlast alræðisvald yfir samfélögunum. Hrikaleg tilhugsun en sönn – að ég hygg.

 Þrælahald fyrr og nú

Enda þótt Feneyjar heyrðu undir býsanska keisaradæmið var feneyska borgríkið ætíð mjög sjálfstætt. Það má m.a. ráða af því, að þegar Feyneyingar gerðu tvíhliða samning við Róm árið 840 var ekki áður haft um hann samráð við yfirboðarana í Konstantínópel. Á tímum krossferðannna, frá því undir lok 11. aldar (fyrsta krossferðin var 1095)  og fram á öndverða 13. öldina (fjórða krossferðin var 1201 – 4) kom í ljós hve séðir Feneyingar voru. Þeir högnuðust á viðskiptum við bæði kristna menn og múslíma, veittu margvíslega þjónustu, önnuðust flutninga pílagríma – gegn gjaldi að sjálfsögðu – og gætu menn ekki borgað voru þeir einfaldlega seldir í þrældóm. Þá er þess að geta að ævinlega reyndu Feneyingar að búa svo um hnúta að herfang endaði í Feneyjum.
Fram kemur að umtalsverð þrælaverslun var í Feneyjum á Miðöldum – aðallega var verslað með Slava en einnig fólk úr vestanverðri Evrópu. Nú segja staðkunnugir frá því að á síðustu árum hafi mikill fjöldi manna streymt frá Austur-Evrópu til Ítalíu í atvinnuleit en einnig hafi stórir hópar verið fluttir í nauðung, þar á meðal ótölulegur fjöldi kvenna sem gerðar séu út í vændi – nokkuð sem minnir á þrælaverslun fyrr á öldum. Þá herma fregnir að víða um Ítalíu, einkum sunnanverða, hafi verið flutt fólk í stórum hópum frá austanverðri Evrópu til tímabundinna akuryrkjustarfa, svo sem að tína tómata. Meðferðin minni á þrælahald, kaupið nánast ekkert og allur aðbúnaður fyrir neðan allar hellur. Og iðulega gerðist það, að því er hermt er, að áður en kemur að útborgunardegi í lok uppskerutímans, hringi atvinnurekandinn - þrælahaldarinn – í lögreglu til að upplýsa um fólk sem komið sé til að vinna án tilskilinna leyfa. Slíkt brot sé ávísun á umsvifalausan brottflutning úr landi.
Upp í hugann kemur samtal þeirra Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra Íslands og Gorbatsjofs, þá æðstráðandi í Sovétríkjunum, í Kreml í ársbyrjun 1987. Ég fylgdist með fundi þeirra sem fréttamaður Sjónvarpsins. Hvenær kemur til þess að fólki verður frjálst að ferðast eins og það vill og sækja atvinnu hvert á land, sem hugur þess stendur til, spurði forsætisráðherra Íslands leiðtoga Sovétríkjanna. Það kemur að því, sagði Gorbatsjof, en mín spá er sú, að þá verði það vestanmenn sem vilji reisa múrana til þess að sporna gegn flóðbylgjunni vestur á bóginn! Gorbi reyndist sannspár. Jafnvel innan Evrópusambandsins voru settir þröskuldar á innflæði vinnuafls við stækkun Ebvrópusambandsins nú nýlega, jafnvel frá þeim ríkjum Austur- Evrópu, sem þó eru komin í sambandið.
Svo fór að lokum að Feneyingar tóku Konstantínópel herskildi – tímabundið þó - og urðu um langt skeið mesta sjó- og herveldi í sunnanverðri Evrópu; réðu strandlengjunni við Adríahafið og sölsuðu undir sig lönd upp eftir Balkanskaga.

Lýðræði, jafnvægi og velsæld

Það merkilega við Feneyjar frá þessum tíma er í mínum huga, stjórnarfyrirkomulagið. Lénsfyrirkomulag þróaðist þar aldrei – heldur myndaðist eins konar borgaralegur aðall. Og þetta aðalsveldi kom á fót lýðveldi með kjörnum foringja - hertoga. Hann var kosinn af aðlinum, sem jafnframt kaus eins konar þing, sem aftur kaus sér æðstaráð. Og fyrir Björn Bjarnason má geta þess að síðan var starfandi öflug leynilögregla í Feneyjum, sem átti að finna glæpamanninn áður en glæpurinn var framinn. Við könnumst við þessa umræðu!
Hugmyndin var sú að allir þessir aðilar, hertoginn, þingið, æðstaráðið og aðallinn í heild sinni  fylgdust hver með öðrum. Leiðsögumaður okkar í Feneyjum sagði að það væri þetta sem enskumælandi menn kölluðu checks and balances, eftirlit og jafnvægi. Þetta telja sagnfræðingar, var okkur sagt, hafi stuðlað að innra styrk Feneyja. Menn hafi aldrei þurft að óttast svik og launráð innan frá. Slíkt hafi jafnan verið upprætt þegar á annað borð um slíkt var að ræða. Eða hvers vegna haldið þið að gluggar á fornum byggingum hér séu stórir og allt opið – gagnstætt því sem var annars staðar í Evrópu á Miðöldum, spurði leiðsögukona okkar. Annars staðar voru menn ætíð að búast við árás, jafnvel frá sínum nánustu. Því var ekki til að dreifa í Feneyjum!
Kannski var það þess vegna að Napóleon komst upp með það, að nánast ganga inn í Feneyjar mótþróalaust árið 1796  og lýsa því yfir að frá því augnabliki væri hann æðstráðandi í Feneyjum. Svo lengi höfðu Feneyingar búið við öryggi að þeir höfðu látið skilaboð sendiherra síns í París um að Napóleon renndi hýru auga til Feneyja sér í léttu rúmi liggja. Þeir væru að halda karnival, hafði sendiherranum verið svarað, og mættu þeir ekki vera að því að angra sig á einhverjum fjarlægum diplómatískum vangaveltum.
Eflaust var þetta fært í stílinn, en hvað sem því líður, þá var það staðreynd að þar með var lýðveldið- Republikan – liðið undir lok. Eftir valdatíð Napóleons komust Feneyjar undir austurísk yfirrráð og sameinuðust síðan öðrum hlutum Ítalíu á síðari hluta 19. aldarinnar í það ríki sem við þekkjum í dag, Ítalíu.
Saga Feneyja er um margt ágæt dæmisaga. Jafnvægi í stjórnarfarinu skapar stöðugleika en andvaraleysi verður ríkinu að falli. Ekki svo að skilja að ætla megi að Feneyingar hefðu sloppið undan Napóleon með stórhertum vörnum, þær hefðu eflaust ekki dugað til, en með því að stilla leikum og skemmtan aðeins í hóf hefði fyrirhyggjan ef til vill verið meiri. En hvað skyldi leynilögreglan hafa verið að hugsa – var hún dauð úr öllum æðum? Af feneysku leynilögreglunni fara það litlar sögur – alla vega í aðgengilegum bókmenntum fyrir ferðalanga - að erfitt er að draga lærdóma af starfi hennar, þar verðum við að styðjast við reynsluna úr samtímanum, leynilögreglu Bush, sem undir því yfirskyni að vilja vernda mannkynið, hneppir andstæðinga sína í fangelsi þar sem þeir sitja án dóms og laga og sæta pyntingum og svívirðilegri meðferð. Slík vinnubrögð skapa ekki jafnvægi og frið heldur ójafnvægi og ófrið eins og dæmin sanna.

Oscar Wilde og grímurnar

Þar sem minnst var á karnivölin, þá gátu þau staðið mánuðum saman – og hafa nú í seinni tíð verið vakin til lífsins að nýju. Þaðan koma hinar frægu grímur sem sjást um allt í verslunum í Feneyjum. Grímurnar höfðu praktíska þýðingu var okkur sagt. Meðal annars þessa: Feneyjar hafi verið innilokaðar og aðallinn hafi orðið að vera vandur að virðingu sinni – einnig þeir sem vildu stunda skemmtanir sem ekki þóttu til eftirbreytni, til dæmis fjárhættuspil.
Spilavíti voru jafnan nokkur í Feneyjum. Það þóttu ekki móralskir staðir og sérlega var það litið hornauga ef fulltrúar valdakerfisins, þeir sem voru fyrirmynd annarra, létu sjá sig á þessum stöðum. Þar gömbluðu menn í óþökk geistlegra og veraldlegra yfirvalda sem þó létu athæfið óátalið svo lengi sem menn væru með grímur! Þessi pragmatíski máti minnir svolítið á afstöðu Íslendinga til hins heiðna siðar við kristnitökuna árið 1000. Öll skulum við vera kristin, á þá leið sögðu forsvarsmenn íslensku þjóðarinnar þá, en bættu því við að ekki yrði það illa séð þótt menn blótuðu aðra guði – svo lengi sem menn gerðu það á laun! Líkt fóru menn að í Feneyjum. Menn fóru sínu fram – á bak við grímuna. Þess má geta til gamans að haft hefur verið eftir Oscar Wilde að enginn sýndi sinn innri mann fyrr en hann væri komin á bak við grímu – í dulargervi!

Hlýnun jarðar vekur ugg í Feneyjum

Það þarf ekki að undra að Feyneyingar skuli fylgjast með ugg í brjósti með svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Hlýnandi loft bræðir jökla jarðarinnar, yfirborð sjávar hækkar og í Feneyjum flæðir. Okkur var sagt að sjávarmál í Feneyjum hefði hækkað um fimm cm á fimm árum. Það er grunsamlega mikið og kann að vera orðum aukið en hitt vita menn að flóðin á Markúsartorginu í Feneyjum eru nú tíðari en fyrir aðeins örfáum árum. Við urðum vitni að tveimur flóðum þá tvo daga sem við stoppuðum í Feneyjum.
Feneyjar eru borg mikillar fegurðar og mikillar sögu. Arfleifðin er íbúunum kær og eru þeir staðráðnir í því að flytja hana inn í framtíðina. Árið 1996 brann La Fenice óperuhúsið í Feneyjum til grunna – það óperuhús sem fegurst þótti í borginni. Um stund voru íbúarnir sem lamaðir. Menn spurðu felmtri slegnir hvað eiginlega ætti yfir þá að ganga.
Það var von að Feneyingar spyrðu, borgin að sökkva og helsta óperuhúsið brunnið til kaldra kola.
En Fenyingar náðu von bráðar áttum. Hafist var handa um að endurreisa óperuna fyrir gífurlegar upphæðir. Leiðsögumaður okkar taldi upphæðina hafa verið 140 milljarða króna – erfitt er að trúa því en hitt er víst að þetta voru miklir fjármunir sem minnir okkur í nútímanum á alla þá vinnu sem forverar okkar settu í handverkið í fegurstu byggingum fyrri alda. Menn hrökkva við þegar endurtaka á leikinn á okkar öld! Endurreisn La Fenice sýndi hug Feneyinga til menningarinnar og sögulegrar arfleifðar sinnar. Okkur var sagt að ákvörðunin um að endurreisa þetta óperuhúsið hefði orkað sem andleg herkvöð á borgarbúa; hvatning um að láta ekki bugast þótt á móti blési heldur hefja nýja framfarasókn! 

Eitt naut og tólf svín

Það sem upp úr stendur í mínum huga er hve öflugt ríki Feneyjar voru um árhundruð og við hve mikið jafnvægi ríkið bjó. Og skýringin? Til þess að gera – miðað við aðrar þjóðir – bjuggu Feneyingar við lýðræði og innri styrk sem aftur skapaði traust, sem er forsenda jafnvægis. Eitt leiðir af öðru. En lýðræðið er ekki bara jákvætt í sjálfu sér. Með lýðræði og checks and balances verður best haldið aftur af hinu vafasama í manninum, böndum komið á skepnuna í okkur. Af henni – óargadýrinu sem blundar í manneskjunni - eru reyndar mýmörg dæmi úr sögu Feneyja. Það vottar fyrir grimmd og hinum svarta húmor í frásögninni af því þegar erkibiskupnum af Feneyjum var rænt árið 1162 og honum haldið í gíslingu ásamt tólf prestum. Ekki veit ég hvaðan hugmyndin kom um lausnargjald fyrir þá. En niðurstaðan varð sú að fyrir frelsum biskups og prestanna tólf skyldi greitt eitt naut og tólf svín. Þessa atburðar var eftirleiðis minnst á karnivölunum frægu með því að höggva höfuðið af nauti og henda tólf lifandi svínum ofan af turni, borgarbúum til skemmtunar. Það var einnig gert til skemmtunar í Feneyjum að skjóta lifandi hundum úr fallbyssum. Margt fleira af þessu tagi og þaðan af verra gerðu Feneyingar sér til skemmtunar og ef horft er til alls þess sem mannskepnan hefur gert hverri annarri til miska til að hafa af því skemmtun, verður manni hugsað til þess hve nauðsynlegt er að búa við stjórnarfar sem byggir á margnefndum checks and balances.
Það er nefnilega þannig að þótt ekki sé lengur efnt til leika á borð við hina fornu Rómarleika, þar sem þrælar voru látnir berjast upp á líf og dauða, aflífaðir að duttlungum foringjanna, sem með þumalhreyfingu gáfu merki um  örlög þess þræls, sem lá undir sverði andstæðingsins í hringnum hverju sinni,  þá eru keisararnir enn til staðar. Þeir bera bara aðra titla og þeir heita öðrum nöfnum.

Ólafur Elíasson á hverjum húsvegg

Ekki má gleyma að segja frá því að í Feneyjum var hvergi þverfótað fyrir auglýsingum og plakötum um Ólaf Elíasson, myndlistarmann og sýningu á verkum hans. Því miður áttum við ekki kost á að fara á sýninguna. En þess urðum við áskynja að Ólafur Elíasson er hátt skrifaður á þessum slóðum.
Flórens er frábrugðin Feneyjum. Hún gefur Feneyjum ekkert eftir í hinni sögulegu arfleifð, nema síður sé. En í samtímanum er hún önnur. Þetta rennur ekki upp fyrir manni í  einu vetfangi – en hið augljósa verður þó sýnilegt um leið og bent er á það: Bílaumferð!  Í Flórens eru bílar. Í Feneyjum eru hins vegar engir bílar – öll umferð á bátum um síkin. Feneyjar eru þar af leiðandi kyrrlátari en Flórens.
Þótt talsverð bílaumferð sé í Flórens er það þó ekki hún sem setur mestan svip á borgina – heldur mannhafið – ótölulegur fjöldi túrista, margfalt fleiri en í Feneyjum – og síðan náttúrlega hitt sem þessir túristar eru komnir til að sjá; söfn og sögufrægar byggingar. Sagan er á hverju horni í Flórens. Þar var Michelangeló og þar var Dante, Leonardo da Vinci og allir hinir. Meira segja Gosi er ættaður frá Flórens!
Flórens var geysilega auðugt og öflugt borgríki um aldir. Framan af örlaði fyrir lýðræði því vellauðugur karlpeningur kaus yfir fólkið yfirvaldið. Að því kom þó að Medici ætttin tók öll völd í sínar hendur og Flórens varð að stórhertogadæmi og laut forystu Medici ættarinnar um þrjú hundruð ára skeið. Mest varð veldi þessarar ættar á 15. öldinni.
Hertogar af Medici ætt – konungar urðu þeir ekki -  voru mismunandi að upplagi – sumir sæmilegustu menn, aðrir hinir verstu fantar allir stórir upp á sig. Úr fjarlægð dá margir valdið. Ferðamenn gapa af hrifningu. En þegar valdið er nær okkur í tíma og heitir til dæmis Berlusconi, Bush eða Blair gegnir öðru máli. Fjarlægðin gerir fjöllin blá.

Dæmisaga frá Flórens um völd

Frá höll þeirra Medicihertoga og til kirkju og kauphallar þurfti að fara yfir ána Arnó. Á henni var brú. Medici-hertogar létu hækka brúna – eða öllu heldur byggja yfir hana – þannig að þeir gætu gengið einni hæð ofar en pöpullinn. En ekki nægði þeim þetta því útsýnið – það sem bar fyrir augu vegfarandans á efri hæðinni fannst þeim ekki boðlegt finum mönnum eins og þeim sjálfum. Fyrir neðan þá, á sjálfri brúnni og gönguleiðinni var nefnilega grænmetismarkaður. Þeir létu flytja þennan markað, þar sem verslað var með kálmeti og kartöflur, á brott og í staðinn fengu kaupmenn sem höndluðu með demanta og skartgtripi aðstöðu á þessum stað. Sú skipan hefur haldist fram á þennan dag og er fjöldinn allur af skartgripasölum við þessa brú á ánni Arnó í Flórens!
Margt merkilegt bar fyrir augu í Flórens. Umhugsunarvert var að virða fyrir sér styttur utan á byggingum, einnig hinum geistlegu. Þar voru nefnilega saman komnir guðspjallamenn og hin helgu tákn í bland við listamenn og stjórnmálamenn samtímans, þá  Michelangeló, Leonardó da Vinci auk Machiavellis sem á sínum tíma skrifaði Prinsinn, handbók í veraldlegri refskák fyrir valdamenn. Hið veraldlega og trúarlega rann þannig saman í eitt.
Þannig hafði valdafyrirkomulagið líka verið um aldir á þessum slóðum. Kirkjan og hið veraldlega vald voru sitt hvor hliðin á sama peningnum. Það er ekki alveg út í hött að nota þá samlíkingu því á hendur kirkju og veraldlegum valdamönnum í ítölsku borgríkjunum, ekki síst í Flórens, safnaðist á þessum tímum gífurlegur auður. Þessir aðilar gættu hvor annars. Í samspili þeirra á milli mátti engu hagga.
Innan veggja kirkjunnar ríkti mikil íhaldsemi. Það er lýsandi um íhaldssemina að jafnvel mestu fiðlusnillingar tónlistarsögunnar máttu ekki leika á hljóðfæri sín í kirkjum. Þar áttu að hljóma alvöruþrungnari tónar. Þeir sem hafa verið í Markúsarkirkjunni í Feneyjum þegar klukkum hennar er hringt, eða orgelið hljómar, hafa fundið á eigin beinum, við hvað er átt. Hin þunga dramatíska hljómfegurð er eins og sjálfur niður sögunnar. Þar er ekkert flökt. Aðeins djúprist kjölfestan. Hvort sú kjölfesta hafi alltaf verið til góðs skal látið liggja á milli hluta.

Dómkirkjan í Písa og Skálholtsbiskupsstóll jafnaldrar

Frá Flórens var förinni heitið til Písa. Það er hreinn unaður að ganga um Písa  – ekki bara Piaza Dei Miracoli þar sem er að finna hina miklu dómkirkju með sínum sögufræga skakka turni þar sem Galileo gerði athuganir sínar á 16. öld, sem leiddu til þess að hann setti fram keningu sína um þyngdaraflið.
Fífill Písa var fegurstur á 12. og 13. öld. Pisa var þá öflugt herveldi , sem safnaði miklum auði í verslun við Austurlönd. Þessa sá stað í byggingum borgarinnar frá þessum tíma og í listaverkum sem bera vitni gróskumikilli list og menningu.
Hafist var handa um byggingu dómkirkjunnar í Písa árið 1064 – um svipað leyti og stofnaður er biskupsstóll á Íslandi en Ísleifur Gissurarson varð einmitt biskup í Skálholti árið 1056, átta árum áður en menn tóku til við að reisa dómkirkjuna í Písa.
Við vorum stutt í Pisa, komum um hádegið, fórum um eftirmiðdaginn  til bæjarins Lucca, skammt frá Písa, afar skemmtilegs bæjar sem státar af sögufrægum byggingum frá Miðöldum og andrúmslofti eins og best gerist. Kvöldið áttum við hins vegar í Pisa. Þá iðaði borgin bókstaflega af lífi enda um fjörutíu þúsund stúdentar við nám í þessari borg, sem telur um hundrað þúsund íbúa.
Frá Pisa var haldið til Torinó. Einnig þar rennur sagan og nútíminn í eitt. Það er gaman að ganga um miðborg Torino og njóta fegurðar borgarinnar, sem er ótvíræð. Ekki gafst tími til að skoða hin miklu söfn borgarinnar – þar mun til dæmis vera mesta safn egypskrar menningar sem er að finna utan Egyptalands.
Eftir sólarhringsdvöl í Torínó var haldið yfir á Rívieruna í fylgd með vinafólki sem bauð okkur gistingu í litlu fjallaþorpi, Airole, sem liggur fáeina kílómetra upp af strandbænum Ventimiglia, rétt austan við Mónakó, þann hrikalega stað. Þar hef ég næst fundið fyrir þeirri tilfinningu að vera staddur í ríki sem hefði lögleitt glæpi og væri glæpsamlegt í sjálfu sér. Sem betur fer þurftum við ekki að stíga þar fæti inn fyrir landamæri aðeins í nærliggjandi bæi, til dæmis í franska smábæinn Mentone. Þar var gott að vera.

Íslandssýningin  í Dolceacqua

Ítalíumegin landamæranna á Rívierunni – aðeins upp til fjalla - er þorpið Dolceacqua. Þangað fórum við á laugardagskvöldið. Þar sáum við sýningu, ítalska ljósmyndarans Eugenio Andrighetto á ljósmyndum sem hann tók í Íslandsferð sinni sumarið 2000. Myndirnar voru einu orði sagt, stórkostlegar og fékk ljósmyndarinn lófaklapp að sýningu lokinni. Ekki síst þótti fólki mikið til fossamynda Eugenios Andrighettos koma. Þar í bland var fossaröðin sem drekkt verður í Hálslóni við Kárahnjúka. Um það var ekki rætt á sýningunni í Dolceacqua.
Ég held að í salnum þar sem sýningin fór fram hefði enginn trúað því að til stæði að eyðileggja þessa fegurð. Í lesnum texta Eugenios Andrighettos með myndunum, sagði að á Íslandi væri menntaðasta og gjörvulegasta þjóð í heimi! Eugenio var ekkert að draga af sér þegar hann lýsti aðdáun sinni á Íslandi og Íslendingum. Sennilega hafði hann ekki hitt sitjandi ríkisstjórn Íslands í heimsókn sinni til landsins fyrir sex árum. Alla vega vissi hann ekki um þau áform sem hún þá hafði á prjónunum.
Þegar skálað var í ítölsku rauðvíni um miðnætti á sunnudagskvöldið í kveðjuskyni við ítalska gestgjafa við ítölsku Rívieruna var liðin rétt vika síðan við komum frá Íslandi til Ítalíu. Mér fannst þetta hins vegar vera heil eilífð. En eilífð sem þó hafði varað stutt. Svona virkar Ítalía, mótsagnakennd, land sögunnar en um leið tímalaus.
Klukkan hálf sjö á mánudagsmorgun þarf að ná í lest sem heldur suður á bóginn þar sem fyrrnefnd ráðstefna fer fram. Þá er eins gott að hafa tímaskynið í lagi.