Fara í efni

JÁ, HVAÐ YRÐI SAGT Í EINKAFYRIRTÆKI GUÐLAUGUR ÞÓR?

Guðlaugur Þór Þórðarson kom fram í fréttum í gær og gagnrýndi harðlega frágang á bílastæðinu við höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Þótti borgarfulltrúanum, sem jafnframt er alþingismaður, of mikið í lagt. Hvað hefði verið sagt í einkafyrirtæki, spurði Guðlaugur Þór. En gæti nú ekki verið að víða væri bruðlað nokkuð hressilega í mörgum einkafyrirtækjum? Á ráðastöfun fjármuna í opinberum stofnunum annars vegar og gróðafyrirtækjum á markaði hins vegar, kann þó að vera einn grundvallarmunur. Hann er sá að í einkafyrirtækjum fer gróðinn að mestu leyti niður í vasa eigenda og birtist í munaði í einkaneyslu þeirra, dýrlega búnum heimilum, sumarbústöðum, stórum dýrum bifreiðum og svo framvegis. Tal Guðlaugs Þórs um spartanska meðferð fjármuna í einkageiranum er því út í hött. Það má vel vera að hús og aðstaða sem Orkuveita Reykjavíkur hefur búið sjálfri sér, sé of kostnaðarsöm. Þetta snýr þó að aðstöðu starfsfólks og síðan öllum almenningi, eigendum Orkuveitunnar. Peningarnir fara í almannaþjónustu. Framhjá því má ekki horfa. Hitt skal tekið undir með Guðlaugi Þór að forgangsröðun kann að vera ábótavant og benti hann á samanburð bílastæðis og leikskóla í þessu sambandi. Þarna tek ég undir með borgarfulltrúanum.
Jóel