JÓHANNA OG FJÖLSKYLDUHJÁLPIN
Það var vel til fundið hjá kynningarfulltrúa Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, að láta hana mæta hjá Fjölskylduhjálpinni í vikunni til að geta sýnt hana í faðmlögum við fátækt fólk á forsíðum dagblaðanna. Hvað skyldi félagsmálaráðherra ætla að gera þegar kemur að því að skammta heilbrigðisþjónustunni framlög á fjárlögum fyrir næsta ár? Um það verða greidd atkvæði á Alþingi í vikunni við þriðju umræðu fjárlaga. Það er nefnilega þetta fólk, fátækasta fólkið á Íslandi sem á allt sitt undir því komið að heilbrigðisþjónustan sé í lagi. Ég verð að segja að mér verður illt að horfa á Samfylkinguna knékrjúpa fyrir frjálshyggjunni og sárast finnst mér að fylgjast með félagsmálaráðherranum sem ég hélt að væri félagshyggjustjórnmálamaður. Í annað skipti á hennar stjórnmálaferli er það hlutskipti hennar og annarra Krata að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda á Íslandi. Eins og jafnan er allt lagt í að gera sem mest úr einhverjum molum til öryrkja og aldraðra – en á sama tíma búa þau í haginn fyrir fjármagnsöflin. Eins gott að kíkja við hjá Fjölskylduhjálpinni – í fylgd ljósmyndara.
Grímur