JÓNÍNA BJARTMARZ, UMHVERFISVERÐLAUNIN OG HINAR SYRGJANDI MÆÐUR
Á degi umhverfisins – sem var í gær - taldi Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra Framsóknarflokksins rétt að veita auðhringnum Bechtel sérstök verðlaun, Kuðunginn, sem er umhverfisviðurkenning Umhverfisráðuneytisins. Vel kann að vera að fyrirtækið hafi staðið sig vel hvað varðar öryggisreglur við byggingu álversins á Reyðarfirði, en vandséð er hvernig mengandi stóriðja á skilið sérstök umhverfisverðlaun. Að verðlauna fyrirtækið af því það “vinnur eftir umhverfiskerfi sem dregur stórlega úr líkum á umhverfisslysum og mengun” er umhugsunarefni. Hefði mátt ætla að ríkisstjórnin hefði gert ítrustu kröfur í þeim efnum að skilyrði fyrir leyfisveitingu. En þetta minnir okkur líka á að af þessum rekstri stafar hætta vegna umhverfisslysa og mengunar.
Bechtel er þekkt um heim allan og er mér ekki kunnugt um að þessi alræmdi auðhringur njóti í öðrum löndum þeirra aðdáunar og þess trausts sem Framsóknarflokkurinn á Íslandi ber til fyrirtækisins.
Í skýrslunni “Bechtel: Profiting from destruction” sem mætti þýða “Bechtel: Grætt á gjöreyðingu” frá árinu 2003, er saga fyrirtækisins rakin með dæmum. (Sjá hér:) Í inngangi segir: “Þessi skýrsla rekur dæmi úr sögu Bectels sem hefur látið að sér kveða í vatnsveitum, kjarnorkuiðnaði, orkugeiranum og almannaþjónustu. Þessi dæmi afhjúpa sögu ósjálfbærrar og eyðileggjandi hegðunar sem hafa ollið viðvarandi eyðileggingu samfélaga og umhverfis víða um heim. Hér er að finna lýsingar frá fyrstu hendi þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á hegðun fyrirtækisins... Þessi skýrsla afhjúpar 100 ára sögu sem hefur snúist um að fá sem mest út úr ruddalegustu tækninni, að hala inn óhóflegan gróða og að hundsa samfélagslegan og umhverfislegan fórnarkostnað.” Hér verður aðeins tæpt á tveimur dæmum sem hátt ber í samtímanum: Írak og vatninu.
Írak
Rakin eru dæmi um hvernig Bechtel hafi átt í góðum viðskiptum við stjórn Saddams Husseins, en síðan hafi forystumenn fyrirtækisins, sem löngum hafi átt greiðan aðgang að forsetum Repúblikana, átt þátt í undirbúningi innrásarinnar í Írak. Fyrirtækið hafi síðan fengið afhenta samninga frá Bandaríkjaforseta án útboðs, til að byggja upp það sem innrásarherinn hafði lagt í rúst. Fyrirtækið gafst reyndar upp á uppbyggingarstarfinu í fyrra og dró sig út úr landinu, en fékk fyrir vikið 2.4 milljarða bandaríkjadala. Fyrirtækið hefur sjálft gefið út fagra mynd af uppbyggingarstarfi sínu (sjá hér:), en á það hefur verið bent (sjá hér: ) að aðeins sé ein óháð eftirlitstofnun sem sé viðurkennd af bandaríska þinginu, SIGIR, og að hún hafi aðeins komist yfir að meta 65 af þeim 13.578 verkefnum sem bandaríska ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og borgað í Írak. Þrátt fyrir þá takmörkuðu yfirsýn er sýnt fram á að afrekaskrá Bechtels, eins og fyrirtækið lýsir henni, er ekki sannleikanum samkvæm. Bechtel segist t.d. hafa gert við þrjár brýr á meginþjóðbrautum sem hafi orðið fyrir stríðsskemmdum. SIGIR segir að engum slíkum framkvæmdum hafi verið lokið. Bechtel segist hafa neyðst til að hætta við byggingu fæðingar- og barnaspítala í Basra vegna „öryggisástands“. SIGIR segist hins vegar hafa sagt upp 50 milljón dollara samningi Bechtels, þegar í ljós kom að fyrirtækið hafði gefið rangar skýrslur og var komið 90 milljónir dollara fram úr fjárhagsáætlun og einu og hálfu ári á eftir verkáætlun. Hætt er við að það hafi enn aukið á sorg íraskra mæðra.
Vatnið
Af því umhverfisráðherra okkkar Íslendinga telur vert að veita Bechtel umhverfisverðlaun, er rétt að rekja sögu fyrirtækisins í vatnsmálum, en Bechtel er eitt af tíu stærstu einkafyrirtækjunum á því sviði. Í einni stærstu borgum Bólivíu, Cochabamba, var vatnsveitan einkavædd 1999 og færð í hendur fyrirtækisins Aguas del Tunari, sem var í eigu Bectels og International Water Ltd.(sjá hér:). Vatnsgjöld hækkuðu samstundis, í sumum tilfellum um 100 – 200 prósent. Lágmarkslaun eru innan við 100 dali á mánuði en margar fjölskyldur fengu vatnsreikninga upp á 20 dali eða meira. Fyrirtækið reyndi meira að segja að meina fólki að safna vatni af húsþökum sinum með þeim rökum að vatnið væri fyrirtækisins! Borgarbúar risu gegn okrinu og fóru í allsherjarverkfall í janúar 2000. Ríkisstjórnin sendi herinn á vettvang og í mótmælaöldunni slösuðust 175 og einn lést. En mótmælum linnti ekki og á endanum rifti ríkisstjórnin samningnum við undirfyrirtæki Bechtels. Bechtel lagði hins vegar fram kröfur um milljarða króna í skaðabætur vegna þess gróða sem fyrirtækið taldi sig hlunnfarið um.
Becthel og undirfyrirtæki þess hafa víða komið við sögu, frá Eistlandi til Manilla á Filippseyjum og alls staðar er að segja sömu sögu svikinna loforða. Vatn er að verða mikilvægasta auðlind veraldar og því skiljanlegt að Bechtel leiti hófanna hér sem annars staðar. Ríkisstjórnin hefur með nýjum vatnsveitulögum frá 2004 opnað fyrir að sveitarfélög geti selt frá sér vatnsveiturnar til hlutafélaga. BSRB hafði það að vísu í gegn við samningu frumvarpsins að meirihluti í slíku hlutafélagi þurfi að vera í eigu opinberra aðila, en menn geta velt þvi fyrir sér hver aðstaða sveitarfélaga fyrir austan verður ef til slíkra samninga kæmi. Ekki hefur það styrkt samningsaðstöðu sveitarfélaga að Bechtel hefur leyfst að borga 80 milljónir í nýtt íþróttahús og heyrst hefur af fleiri slíkum styrkjum til sveitarfélagsins.
Það er sem sagt til önnur hlið á umhverfisverðlaunahafa Jónínu Bjartmarz en þá sem er að finna á heimasíðu verðlaunahafans um eigið ágæti. Bechtel hefur stært sig af því á heimasíðu sinni að eitt sinn hafi fyrirtækið haft einhvers konar aðkomu að 350 orkuverum sem gengu fyrir kolefnabruna. Síðan eru liðin nokkur ár. En skyldi vera ástæða til að furða sig á dómgreind framsóknarmanna þegar kemur að verðlaunaveitingum? Framsóknarflokkrurinn hefur sýnt að hann er mikið fyrir verðlaun gefin, hvort sem er fyrir umhverfisverðlaun, jafnréttismál eða annað. Verðlaunahafi Framsóknar í jafnréttismálum í aðdraganda kosninga var Framsóknarflokkurinn. Ég hef sannfrétt að innan Framsóknar hafi þetta þótt verðskuldaður sigur. Auðhringurinn Bechtel stendur jú nærri Framsóknarflokknum. Næst verður sennilega að verðlauna Framsóknarflokkinn fyrri að hafa verðlaunað Bechetel. Þá yrði allt fullkomnað. Ef þetta gerðist mættum við vita að þjóðin hefði gengið í björgin. Það verður vonandi aldrei.