Fara í efni

KALLAÐ EFTIR STJÓRNLAGAÞINGI

Auðvaldið nýtir sér hvert tækifæri til að kýla sínar breytingar í gegn, af eins mikilli hörku og þeim virðist óhætt í hvert sinn. IMF hefur undanfarna áratugi verið mikilvirkt tól í þeirri baráttu. En þetta vita allir sem vilja sjá! Af hverju hanga andstæðingar þessara afla í stöðugri vörn? Ég held að það sé tími til að sækja að. Mér þætti forvitnilegt að vita, hvort ekki væri hljómgrunnur fyrir því að kalla eftir stjórnlagaþingi á Íslandi. Ábyrgð stjórnvalda á þessum ósköpum er talsverð, og það væri, með fullri virðingu fyrir bæði stjórn og stjórnarandstöðu, barnalegt að halda því fram að einföld skipti um ráðherra myndu hafa veruleg áhrif þar á. Íslenska stjórnarskráin var samþykkt til bráðabirgða árið 1944, en hún hefur aldrei verið tekin til heildstæðrar endurskoðunar. Stjórnskipunarlög landins liggja á víð og dreif, meginhluti þeirra utan stjórnarskrár. Þetta er ekki ásættanlegt ástand. Því hefur ekki verið breytt, því ábyrgðin á breytingum liggur hjá þinginu - og því hafa breytingar á stjórnarskrá aðallega snúist um hagsmunapot með endurskipan kjördæma. Ég legg til að boðað verði til stjórnlagaþings með 100 fulltrúum, kjörnum á landsvísu án kjörlista og án tilvísunar til stjórnmálaflokka. Slík kosning yrði ekki úr hófi flókin. Alþingi kæmi ekki saman á meðan þingi þessu stæði, og daglegum rekstri ríkisins yrði haldið fram með (utanþings-)ríkisstjórn í samstarfi allra flokka. Með þessu yrði ýtt undir að afgreiðsla málsins yrði með sem skjótustum hætti. Þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnskipan mætti svo skipuleggja með þeim hætti að boða að lokum til þingkosninga, þar sem einungis yrðu tveir listar í boði; Já-listi og Nei-listi. Það eru brýn mál á borðum þessa dagana. Er ekki rétt að taka þau til heildarskoðunar í víðu samhengi?
Herbert Snorrason