Fara í efni

Kárahnjúkar og skattborgarinn

Þú segir: "Talið er að fjárfestingin fyrir hvert starf í tengslum við stóriðjuna fyrir austan kosti á bilinu 300 til 500 milljónir króna." Ég spyr því, hvað tekur langan tíma að borga það niður? Þetta er væntanlega tekið af skattpeningum okkar íslendinga?
Hrafnkell Daníelsson

Heill og sæll.
Nánast hver einasta króna, sem runnið hefur til fjárfestinga í tengslum við Kárahnjúkastóriðjuáformin, er lánsfé sem Íslendingar þurfa að greiða til baka. Síðan er spurningin hve mikið fæst upp í þetta fyrir orkusöluna til Alcoa. Það á eftir að koma í ljós en samkvæmt þeim sérfræðingum sem mér þótti mæla af mestri þekkingu og viti um málið í ákvörðunarferlinu, má reikna með að um tap verði að ræða á framkvæmdinni. Þetta á enn eftir að koma í ljós og þar með hve mikið þarf að sækja niður í vasa skattborgaranna. Í millitíðinni hvílir ábyrgðin vissulega á skattborgaranum og neytandanum. Ef þessi fjárfesting hefði ekki komið til sögunnar hefði verið hægt að greiða niður öll lán Landsvirkjunar á skömmum tíma og lækka verulega rafmagnskostnað í landinu!!! Eitt er víst, að þetta er einhver vitlausasta fjárfesting Íslandssögunnar fyrir utan það sem mestu máli skiptir, þ.e.a.s. þau óafturkræfu spjöll á náttúrunni sem unnin eru.
Með kveðju,
Ögmundur