KAUPUM EKKI SKOÐANIR
Mér fannst athyglivert að lesa pistil Jónu Guðrúnar hér á síðunni, en höfundur segist þar hætt að versla í Melabúðinni vegna þess að kaupmaðurinn sé fylgjandi sölu léttvíns og bjórs í verslunum. Nú er það skoðun mín að sala alls áfengis ætti að vera frjáls. Ég er líka þeirrar skoðunar að ekki sé hagkvæmt að selja aðeins bjór og léttvín í matvöruverslunum en halda sterku áfengi áfram í verslunum ríkisins. Þá sé kannski betra að hafa bara ríkið áfram. Kaupmaðurinn í Melabúðinni er greinilega ekki alveg sammála mér um þetta. Ég mun samt ekki hætta að versla við hann.
Sú skoðun að kaupmenn eða aðrir "sem eiga allt sitt undir kúnnunum" megi ekki hafa sjálfstæðar skoðanir og láta þær í ljósi er bæði röng og hættuleg. Þvert á móti eigum við að verja skoðana- og málfrelsi hvers og eins með kjafti og klóm, sama hversu ósammála við kunnum að vera þeim. Má ekki vera að sú lenska að kaupa menn til hlýðni, hvort sem er í einkafyrirtækjum eða opinbera geiranum í krafti þess að þeir "áttu allt sitt undir" vinnuveitandanum hafi átt talsverðan þátt í efnahagshruninu sem við tökumst nú á við afleiðingarnar af?
Við erum vafalaust ósammála um margt, ég og kaupmaðurinn í Melabúðinni. En ég held áfram að versla við hann. Ég kaupi nefnilega ekki hjá honum skoðanir heldur matvöru (og kannski einhvern tíma rauðvín)!
Þorsteinn Siglaugsson