KAUS ÞÁ EINHVER?
Tveir menn virðast hafa stillt ríkisstjórninni upp við vegg. Þeir neita að gera samkomulag sín í milli nema þriðji aðili geri eitthvað fyrst. Annar er forseti, hinn framkvæmdastjóri. Annar var púaður niður á Austurvelli á baráttudegi samtakanna sem hann stýrir. Hinn stýrir samtökum sem borin eru uppi af einstaklingum, sem eiga fyrirtæki eða skuldir, og voru gerendur í hruni efnahagslífsins, bæði með því að smíða hugmyndafræðigrundvöllinn og nýta sér aðstæðurnar sem þáverandi stjórnvöld sköpuðu. Annar á fortíð í sjóðunum, hinn skóp sjóðunum aðstæður sem einn áhrifamesti formaður efnahags- og viðskipanefndar Alþingis. Stjórnmálalífið hafnaði báðum. Þessir fulltrúar launamanna og fyrirtækjanna í landinu hafa beðið eftir niðurskurðarfyrirætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og þær birtast í áætlun í ríkisfjármálum ársins og fjárlagafrumvarpi næstu ára. Já, það er fyrrverandi formaður EFTA nefndarinnnar til sjö ára og fyrrverandi framkvæmdastjóri eignarhaldsfélags sem krefjast sameiginlega niðurskurðar í rekstri hins opinbera. Kaus þá einhver til þess að semja ný fjárlög? Kaus þá einhver til að ganga í eina sæng með IMF og þjarma svo að ríkisstjórninni að henni er vart sjálfrátt í aðgerðum sínum? Stjórnkerfislega virðumst við komin aftur á 18. öldina, öldina þegar innlend yfirstétt bjó þannig um hnútana að lítill munur var á skepnum og mönnum. Það tók alþýðu landsins 150 ár að slíta af sér fjötrana, sem sýslumenn og landeigendur, lögðu hana í á 18. öldinni með stjórnkerfi sínu. Sú vonda stétt manna var ekki kosin.
Hafsteinn