Fara í efni

Kennaradeilan og sveitarstjórnar-viðundrin

Í Mogganum í dag birtist athyglisverð grein eftir Hjörleif Guttormsson þar sem hann fjallar um einkennilega framgöngu sveitarstjórnarmanna í kennaraverkfallinu. Lýsing og greining Hjörleifs er að mínum dómi hárrétt en greinin hefst svo: “Ömurlegt er að fylgjast með feluleik kjörinna sveitarstjórna í yfirstandandi kennaraverkfalli. Samningsumboð sitt gagnvart stéttarfélögum hafa sveitarfélögin falið sérstakri launanefnd sem aftur skýlir sér á bak við hóp embættismanna.” Verður ástandinu öllu betur lýst? Það held ég ekki, og sem Reykvíkingur skammast ég mín sérstaklega fyrir framgöngu meirihlutans í borginni en kjörnir fulltrúar hans, sem og borgarstjórinn, hafa látið eins og þeir hafi ekki minnstu hugmynd um verkfall kennara. Þess í stað dudda þessir svokölluðu félagshyggjumenn sér við það að kynna stjórnkerfisbreytingar sem sagðar eru til að bæta aðgengi borgarbúa að borgarkerfinu og auka lýðræði en eru þó allar til þess fallnar að flækja kerfið enn frekar en orðið er. Þá er í fullum undirbúningi sala á sorphirðu til borgarbúa eftir vigt og einnig er R-listinn að láta þann langþráða draum borgarbúa rætast þessa dagana að geta greitt í stöðumæla í gegnum farsíma. Já, það er mikið að gerast hjá meirihlutanum í Reykjavík og kannski ekki að furða þó málefni grunnskólanna hafi lent á milli þilja í miðri lýðræðis-, tækni- og sorpvigtunarvæðingunni.

En nóg um það og aftur að grein Hjörleifs Guttormssonar. Hann minnir á fögur fyrirheit og göfug markmið sem birtust í yfirlýstri stefnu launanefndar sveitarfélaganna frá árinu 2000. Þar vantar sko hvorki fagurgalann né orðaflauminn, enda vanir menn á ferð. Launastefna launanefndarinnar skyldi laða “til sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra hæfa starfsmenn og stjórnendur” og gera kjarasamninga vegna grunnskólans í samræmi við samninga annarra háskólamanna.” Og Hjörleifur spyr: “Skyldi afstaðan í yfirstandandi kjaradeilu við grunnskólakennara endurspegla þessar áherslur?” Þeirri spurningu er í rauninni óþarfi að svara, auðvitað hefur þessari afstöðu ekki verið fylgt í einu né neinu.

Skammarlegri framgöngu sveitarstjórnarmanna í kennaradeilunni verður vart betur lýst en í lokaorðum greinar Hjörleifs í Mogganum í dag. Þar segir svo: “Þessa dagana eru sveitarstjórnarmenn í landinu að gera sig að viðundri með því að fela sig á bak við grímu ósýnilegrar nefndar og daufdumbra embættismanna á meðan skólunum er að blæða út, svo ekki sé minnst á blessuð börnin.”

Með kveðju og sérstökum þökkum til Hjörleifs,
Ingólfur