Fara í efni

Kostnaðarvitund

 Það er mikið talað um kostnaðarvitund um þessar mundir.  Einkum eru það boðberar hins algera peningafrelsis sem um það tala og þá einkum skort á þessari vitund hjá sjúkum, öryrkjum og öldruðum, en það eru hópar sem sumum þykir greinilega vera fyrir.
Og alltaf á að spara á sjúkrahúsum og þar vantar víst mikið á fullnægjandi arðsemi.  Eins mega sjúkrahúsin ekki sóa fé nema að ákveðnu marki þá eiga þau sennilega að hætta starfsemi og senda alla heim.  Nú hélt ég í fávisku minni að sjúkrahús ætti erfitt með að gera nákvæma fjárhagsáætlun.  Er hægt að gera áætlun um að nákvæmlega þetta margir greinist með krabbamein á árinu, þetta margir þurfi hjartaaðgerð eða nákvæmlega svona margir megi slasast á árinu?  Þegar þessari ákveðnu tölu er náð þá skuli sagt við þá sem eru þar framyfir "því miður, þú verður að bíða."  Einhvernveginn held ég að dauðvona maður hafi ekki  tíma til að bíða.  Lokanir á deildum um lengri eða skemmri tíma eru þó í raun af þessum toga.  Sjúklingarnir hverfa ekki þótt deildum sé lokað, málið er sett í bið líkt og gert er í skákinni, nema að í skákinni er að skaðlausu unnt að halda áfram eftir nokkra daga.  Á sjúkrahúsinu gæti biðleikurinn hafa verið síðasti leikur.
Nú ætla ég engum manni að hann vilji ekki hjálpa þeim sem hjálpar þarf en fólk á að borga sjálft þegar það álpast til að þurfa læknishjálpar.  Það er boðskapur einkavæðingarsinna  sem virðast halda að miskunnarleysi fjármálaheimsins gildi líka í mannheimum.  Það heyrist líka aldrei talað um hvaða verðmæti sjúkrahús og umunnun skapar.  Hvað er það mikils virði fyrir þjóðfélagið að koma veikum og slösuðum til heilsu og  starfa á ný?  Hvað er það mikils virði að gefa öldruðum kost á að taka þátt í lífinu, gæða það lit og miðla sinni reynslu?
Ég lenti í hópi þeirra sem slasaðist alvarlega og líklega hefur kostnaðarvitundin verið í lágmarki þann mánuð sem ég lá meðvitundarlaus og svo sem engin önnur vitund.   Var svo heppinn að þetta var fyrrihluta árs og kvótinn ekki enn fyltur, enda hefði eflaust ekki verið skeytt um það.  Það sem þessir hæfu læknar og yndislega hjúkrunarfólk gerði fyrir mig var nánast kraftaverk.  Sama tók við á Grensásdeild,  alúð, umhyggja og markviss þjálfun, það lögðu sig allir fram.  Þetta fólk lagði sál sína í vinnuna og margar voru þær vaktir að starfsfólkið hafði vart tíma fyrir kaffibolla.  En alltaf var sama ljúfa viðmótið og maður sem varð að byrja nánast á núllpunkti fékk aðstoð við að verða aftur að manni og verða fær á að takast aftur á við lífið.
Og nánast daglega varð maður vitni að kraftaverkum, stundum ekki stórum á almennan mælikvarða, en á svona stað er hvert skref hvað smátt sem það er risavaxið.  Og einlæg gleði fólksins við hverja smá framför var ómetanleg.  Ég man að maður nokkur sagði "Nú veit ég í hvað skattarnir mínir fara, og ég sé ekki eftir þeim."
Ætli það sé ekki tilfellið.  Það er hægt að gaspra um hlutina af algeru þekkingarleysi en þegar menn svo reyna þá á eigin skinni opnast sjónir þeirra. Vonandi að það verði ekki of seint.
grj