LÆRDÓMUR SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKSINS AF HRUNINU
Ég held það séu þrjár þingsetningar síðan Árni Þór varð fyrir eggi. Næst á eftir var girðingin færð út og lögregluþjónar voru fleiri en alþingismenn og mótmælendur til samans. Þá gafst færi til að beita dómgreind og hætta þessu vígbúnaðarkapphlaupi, sem var orðið algerlega einhliða. Við síðustu þingsetningu sáum við framfarir á öllum sviðum í frammistöðu lögreglunnar. Ef marka má fréttamyndir virðist undraverður árangur hafa náðst í kynbótastarfi úrvalsliðs lögreglunnar. Þeir voru fleiri en nokkru sinni, hávaxnari og hörkulegri. Þá hafði metnaður þeirra aukist því þeir höfðu sölsað undir sig stærri hluta af Austurvelli en nokkru sinni. Þessi mynd blasti við sama dag og stjórnvöld kynntu áform sín um niðurskurð á flestum sviðum samfélagsins, að lögreglunni undanskyldri. Hanna Birna hafði reyndar sagt í fjölmiðlaviðtali með nokkrum fyrirvara að það skyldi forgangsraðað í þágu lögreglunnar. Fólkið í landinu varð að búa við öryggi. Það vekur undrun hvernig ríkisstjórnin upplifir öryggisskort borgaranna. Sjúkrahúsin eru fjársvelt og nýjungin þar felst í að rukka fyrir gistinguna. Hver veit hvað þeir rukka fyrir næst? Þetta dregur sennilega úr öryggistilfinningu þeirra sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið. En er þetta e.t.v. vísbending um að þeir sem stjórni við Austurvöll upplifi skort á öryggi við upphaf kjörtímabils? Ætli það sé gott að vita til þess að almannregla geti verið studd af lögregluvaldi og andstæðingum stjórnvalda haldið í skefjum ef þarf. Slíkt fyrirkomulag er stundum kallað lögregluríki en kannski stefnum við ekki þangað alveg strax. Það liggur samt í loftinu að lærdómur Sjálfstæðisflokksins af hruninu virðist aðeins vera sá að það þurfi að verja Austurvöll með meiri hörku en síðast.
Pétur P.