Fara í efni

LÁTUM EKKI FÁTÆKT ÚTILOKA FÓLK FRÁ ÞJÓÐFÉLAGINU

Ég er hjartanlega sammála Sunnu Söru hér á síðunni hjá þér að misréttið er mesta meinsemdin í þjóðfélagi okkar. Ég tek undir með henni að VG eigi að láta meira að sér kveða í velferðarmálunum. Reyndar er ekki við þig að sakast að þessu leyti Ögmundur því þú hefur hvergi hvikað í þessari baráttu svo lengi sem ég man eftir. Síðan er hitt náttúrlega að þið hafi verið í stjórnarandstöðu og hafið ekki geta látið til ykkar taka með beinum hætti. Þið eigið samt að láta meira í ykkur heyra um þennan málaflokk. En þótt mér finnist VG mega gera betur þá hefur flokkurinn staðið velferðarvaktina langt umfram aðra flokka. Það gladdi mig mjög að lesa grein Gests Svavarssonar í Morgunblaðinu: Frelsi frá fátækt, menntunarleysi og veikindum. Hann hittir naglann á höfuðið. Fátækt útilokar fólk frá menntun og heilbrigðisþjónustu. Það er eitthvað meira en lítið að þegar svo er komið í þjóðfélagi sem vill láta kalla sig velferðarþjóðfélag! Þú ættir að fá Gest til að birta grein sína hér á síðunni.
Með baráttukveðju,
Pétur Jónsson

Þakka þér bréfið Pétur. Ég er þér hjartanlega sammála að við eigum ekki að una okkur hvíldar fyrr en fátækt hefur verið útrýmt í landinu. Burt með fátækt! Ég verð við áskorun þinni um að birta hér að neðan grein Gests Svavarssonar, en hann skipar þriðja sætið á lista VG í Suðvestur-kjördæmi, Kraganum sem svo er oft nefndur.
Með kveðju,
Ögmundur

Grein Gests Svavarssonar í Morgunblaðinu þriðjudaginn 3. apríl:

FRELSI FRÁ FÁTÆKT, MENNTUNARLEYSI OG VEIKINDUM

"EITTHVERT einkennilegasta háttalag hægrimanna, og reyndar fleiri pólitískra keppinauta Vinstri grænna, er afneitun. Þetta háttalag kemur missterkt fram eftir atvikum. Þegar markaðsfrjálshyggjan er varin er því til dæmis gjarnan slengt fram að annað sé forræðishyggja. Í ónefndu sveitarfélagi, sem ég þekki nokkuð til í, hefur það jafnvel heyrst að ekki mætti ræða með hvaða hætti skólastarf ætti að vera, það væri miðstýring og forræðishyggja.


Það er ekki þannig!

Annað tilbrigði við afneitun er þegar hægrimenn fullyrða að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar. Seinast heyrði ég í morgunþætti á Stöð 2 þar sem voru stjórnmálakonurnar Guðfríður Lilja frá Vinstri grænum og Sigríður Andersen frá Sjálfstæðisflokki. Sigríður sagði að launamunur kynjanna ætti ekki við rök að styðjast, hún vissi meira að segja um tölfræðing sem væri bara búinn að gefast upp á að reyna að sýna fram á hvernig við "sem viljum hemja einstaklingsframtakið" hefðum rangt fyrir okkur.

Fátækt – er ekki til!

Þriðja tilbrigðið er síðan þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Stefán Ólafsson eru að ræða um hvort fátækt sé til á Íslandi, hvort Gini-stuðullinn segi þetta, eða gefi hitt til kynna. Hannes Hólmsteinn heldur fram að fátækt á Íslandi sé engu meiri í dag en fyrir tólf árum. Þessar fullyrðingar Hannesar eru móðgandi. En þær eru ekki endilega móðgandi fyrir mig. Þær eru móðgandi fyrir þá sem eru fátækir.
Gini-stuðull eða VG-stuðull?Ögmundur Jónasson hefur annan háttinn á við að skoða hvort fátækt hefur aukist á undanförnum tólf árum. Í Morgunblaðinu hinn 23. febrúar setur hann fram annan stuðul sem má kalla Ögmundarstuðulinn eða VG-stuðulinn. Hann er svona:
Hvort er auðveldara nú eða fyrir tólf árum að vera:
a)tekjulítill og húsnæðislaus,
b)tekjulítill og heilsuveill,
c)tekjulítill og með börn á framfæri?
Niðurstaðan er að það er mun erfiðara nú. Það orsakast fyrst og fremst af því að ríkisstjórnin hefur vegið að öryggisneti velferðarkerfisins með svo miklu offorsi að það hefur skaðast stórkostlega. Tekjulítið fólk getur ekki eignast húsnæði í dag því félagslega kerfið er ónýtt, barnabætur hafa staðið í stað, sjúklingagjöld hafa aukist mjög og svo mætti áfram telja. Margt fólk hefur því einfaldlega ekki efni á að hafa sómasamlegt þak yfir höfuðið, verða veikt eða ala upp börn sem hafa sömu möguleika til að þroskast og önnur börn.
Þegar við leggjum mat á þjóðfélagið, á hina pólitísku umræðu, þá eigum við að gæta okkar á því að stimpla ekki endalaust, vísa á bug og benda út í loftið. Við eigum að sýna fólki þá virðingu að tala við það en ekki um það, og halda ekki fram að upplifanir þess séu lygi og tómt hjóm. Þeir sem upplifa að fyrirætlanir Vinstri grænna um betra skólastarf, að leiðrétta launamun kynjanna og útrýmingu fátæktar sé forsjárhyggja verða að eiga það við sig. Ég kýs að kalla það frelsi. Frelsi frá menntunarleysi, frelsi til jafnræðis og frelsi frá örbirgð. Hverjir eru þá postular frelsisins í íslenskum stjórnmálum? Vinstri græn."