Fara í efni

LAUNAFÓLKI HÓTAÐ OG SVIPT RÉTTINDUM

Heill og sæll Ögmundur.
Þú færð líklega þúsundir af tölvupóstum þessa dagana frá reiðum þjóðfélagsþegnum en vonandi lestu nú samt eitthvað af þessu.
Ég er ekki reið heldur hrygg að ríkisstjórnin skuli vera svo máttlaus að úrræðin berist svo seint þannig að fólkið sem tók ekki þátt í velsældinni verði nú öreigar.
Eigendur fyrirtækja ganga nú um og reka fólk og gera samninga sem taka öll réttindi af fólki og uppsagnarfrestir eru ekki virtir, síðasta dæmið er stór keðja matvöruverslana þar er hræddu fólki stillt upp við vegg því sagt að verið sé að lækka starfshlutfall og að öðru leyti séu sömu kjör.
Skrifaðu undir eða að þú ert rekinn, og í smáa letrinu kemur fram að það er verið að svipta fólk öllum réttindum og hneppa það í þrældóm, fólkinu er ekki gefið tækifæri til að lesa og tala við verkalýðsfélög í þessu tilfelli VR.
Frjálshyggjan hefur gert það að verkum að verkalýðsfélögin hafa verið gerð máttlaus hver maður á að semja sjálfur.
Ég vinn ekki hjá þessari verslun en þekki fólk sem er að verða fyrir þessu.
Þessari svívirðu verður að ljúka, hvað segja landslög?
Kær kveðja,
Íslendingur sem tók ekki þátt í þessu feigðarspili