Fara í efni

Lífeyrisumræða komin inn á vafasamar brautir?

Sæll félagi.
Ég var að sjá grein þína á vefnum. Þú skrifar: "Hann tínir fyrst til þegar áfallnar skuldbindingar, horfir síðan fjóra áratugi fram í tímann og bætir við öllum skuldbindingum sem líklegt er að safnist upp á þeim tíma og lífeyrissjóðirnir komi til með að þurfa að greiða út næstu þrjá áratugina þar á eftir eða fram til um 2070. Samanreiknaðri upphæð er síðan deilt á þjóðina og komist að þeirri niðurstöðu að hvert núlifandi mannsbarn skuldi milljón vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna!"
Þetta er einfaldlega rangt hjá þér félagi, ég tók skuldir umfram eignir, bæði áfallið og væntanlegan "skort" á tekjum næstu áratugina. Þetta er í samræmi við lög um lífeyrissjóði og góða reikningsskilavenju endurskoðenda! Hvar ég er að beita rangfærslum sé ég ekki og finnst þú kominn á nýja braut í þínum málflutningi!
Kveðja, Gylfi

Heill og sæll félagi góður og þakka þér fyrir bréfið. Þú vitnar í skrif mín hér á síðunni um úttekt þína á stöðu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, sjá hér.
Það er vissulega rétt, sem þú segir, að það er í samræmi við lög um lífeyrissjóði og góða reikningsskilavenju endurskoðenda að reikna framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóða. Í skrifum mínum er heldur ekki dregið í efa að þú takir skuldir umfram eignir í umfjöllun þinni. Hins vegar bendi ég á, að það sé nýlunda og í ætt við hræðsluáróður að taka áfallnar og framtíðarskuldbindingar og deila þeim á þjóðina sem skuld í dag.
Það er að mínu mati villandi samanburður að taka skuldbindingar sem munu samkvæmt mati tryggingarfræðinga myndast á næstu 40 árum og bera þær saman við þjóðarframleiðslu í dag. Þessi samanburður væri réttur ef stöðnun myndi ríkja í íslensku efnahagslífi á næstu áratugum. En við skulum gera ráð fyrir að svo verði ekki og að þjóðarframleiðslan eigi eftir að aukast.
Þá gagnrýni ég á heimasíðu minni þá framsetningu að taka áfallnar og framtíðarskuldbindingar og komast að þeirri niðurstöðu að hvert núlifandi mannsbarn skuldi í dag milljón vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna. Þarna má í fyrsta lagi benda á sama ósamræmi í samanburðarstærðum og nefnt er hér að framan. Hitt skiptir þó meira máli að hér eru hlutirnir algjörlega teknir úr samhengi. Skuldarar í þessu dæmi eru ríki og sveitarfélög. Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar og því er eðlilegt að lækka skuldina um þá fjárhæð. Þá er útilokað að horfa framhjá samspili lífeyriskerfisins og almannatryggingakerfisins. Greiðslur úr lífeyrissjóðum, hverjir svo sem þeir eru, hafa í för með sér sparnað í almannatryggingarkerfinu. Hin raunverulega skuld er því miklum mun lægri en fram kemur í grein þinn.
Með bestu kveðju,
Ögmundur