LITLI OG STÓRI
Sæl Ögmundur.
Fyrir ekki löngu síðan tók Morgunblaðið upp á því að birta “fréttaskýringar” á forsíðu. Knappar í forminu og tilraunin hefði getað orðið skemmtileg nýbreytni. Fersk eins og nýi framkvæmdastjórinn í góðra vina hópi. Mér þótti Agnes Bragadóttir brotlenda tilrauninni með “fréttaskýringu” um afdrif auðlindamálsins á Alþingi og um álverskosningarnar í Hafnarfirði. Í báðum “fréttaskýringunum” kom fram að blaðamanni Styrmis virtist eitthvað uppsigað við Samfylkinguna. Var Össur Skarphéðinsson svo af einhverjum dularfullum ástæðum, sem enn hafa ekki verið opinberaðar, notaður til að berja á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hinn fréttaskýrandi blaðamaður bað svo nýskeð heilagan góðan Guð að hjálpa sér, ef vinstri flokkarnir kæmust í stjórn að loknum kosningum, enda yrði þá uppnám í fjármálum ríkisins. Þetta gerist í skjólinu hjá Agli Helgasyni. Ung kona, sem ég veit hvorki haus né sporð á, gerði athugasemdir við orð blaðamannsins og varð fyrir bragðið að þola stórkallalegar yfirlýsingar hans um að hún mætti “sko hafa skoðun”. Á útlensku er stundum sagt að röksemdafærsla af þessu tagi sé “infantile”. Ég hef nú raunar beðið eftir því um hríð að Morgunblaðið bæði okkur áskrifendur, lesendur, og áhugakonur um blaðamennsku afsökunar á þessum “fréttaskýringunum”. Kannske afsökunarbeiðnin sé í því fólgin að birta ekki fleiri “fréttaskýringar” af því tagi sem hér er vísað til. Heiðarleiki í blaðamennsku þýðir, eftir bókinni, að menn sinna starfi sínu heilir og óskiptir og eru ekki fulltrúar tiltekinna sjónarmiða.
Ef hætt er við að vinstri flokkarnir rústi fjárhag ríkisins þá ber blaðamönnum vissulega að skrifa um það fréttaskýringu þar sem færð eru rök fyrir því að það gæti gerst, eða að það gerist ekki. Það er ekki nóg að ropa upp einhverjum klisjum sem ganga í morgunkaffi innvígðra á Morgunblaðinu. Það var ekki það sem lagt var upp með.
Bob Woodward eða Ólafur Stephensen gætu báðir hafa verið þeirrar skoðunar að innrásin í Írak hafi verið nauðsynleg og jafnvel réttlætanleg. Það er þeirra skoðun, en hlutverk þeirra sem blaðamanna er annað. Hlutverk þeirra átti ekki að vera að vera talsmenn innrásarhersins, þátttakendur í samkomulaginu sem gert var í og eftir NATO fundinn í Prag. Hlutverk beggja er að upplýsa um Íraksstríðið. Hlutverk Ólafs er líka að setja Íraksstríðið og aðdraganda þess á dagskrá nú fyrir þessar kosningar svo almenningur geti tekið afstöðu sem hann fékk ekki, af augljósum ástæðum, 2003. Þannig er kerfið hugsað. Lýðræðiskerfið sem mönnum lá svo á að tryggja með “Atlantshafstengslunum” sem svo voru nefnd haustið 2002 og þann vetur allan. Menn setja ekki Íraksstríðið á dagskrá fyrir þessar kosningar með því að senda blaðamenn til að gera úttekt á afleiðingunum, flóttamönnunum. Það þarf að fjalla um aðdragandann. Annað er “infantile” svo vitnað sé til þess sem við lærðum í MR. Þá fyrst verða menn sjálfs síns herrar. Heilir. Bob Woodward reyndi til dæmis í bókinni Plan of Attack.
Stjórnmálaflokkar sem halda landsfundi sína stuttu fyrir kosningar ættu að þurfa að sæta því að blaðamenn grandskoði ályktanir þeirra. Að um þær séu til dæmis ritaðar fréttaskýringar. Lítill kafli, en ákveðið orðaður, í kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins ætti í ljósi þinglokanna í vor, og “fréttaskýringa” Morgunblaðsins um afdrif “auðlindamálsins” svokallaða, að gefa “fréttaskýrendum” upplagt tilefni til að endurmeta fyrri skrif sín. Liggur ekki einmitt ágreiningur stjórnarflokkanna, eða ágreiningur Sjálfstæðisflokksins við aðra flokka í þessari ályktun. Mér skilst að svo sé.
Og hvað felst í orðum Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í fjölmiðlum í fyrradag? Það er einnar messu virði að taka eina alvöru fréttaskýringu um boðskap þann. Var ekki seðlabankastjóri að segja, að íslenskir bankar gætu lent í útlánatöpum færi allt á versta veg. Að vextir gætu hækkað erlendis, gengi krónunnar og eignaverð hérlendis gæti lækkað, og ef þetta gerðist allt á sama tíma þá gætu þeir sem mest skulda lent í verulegum vandræðum. Hvernig má það vera að menn taka ekki mark á Davíð Oddsyni í þessum efnum? Hann hefur undanfarið margsinnis varað við því sem er að gerast í efnahagsmálum. Það væri óskandi að fréttamiðlar kveiktu á því sem maðurinn er að segja. Mér sýnist Davíð Oddsson, enn á ný, vera jafn heill í sínu nýja starfi og æskilegt er að fréttamenn séu frá degis til dags. Jafn heill og hann var í afstöðu sinni til stuðningsins við innrásina í Írak. Ég deili ekki skoðun hans, fjarri því, en enginn getur sagt að hann hafi farið í grafgötur og leynt skoðun sinni. Og ekki talaði hann neina tæpitungu í málinu. Aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar völdu sér það hlutskipti. Einhvern tíma hefði ekki þurft að egna menn til að leggja við hlustir þegar Davíð Oddsson talaði. Af hverju hlusta menn ekki þegar hann talar nú um efnahagsvanda? Er það af því að þá þyrftu menn að brjótast út úr morgunverðarfrösunum og fara að hugsa, endurmeta og lenda hugsanlega í frjálsu falli, og komast að því að ríkisfjármálastefna VG er kannske íhaldssamari og minna útgjaldahvetjandi, en annarra þegar grannt er skoðað? Eða er þetta einhver miskilningur hjá mér Ögmundur? Ég er að vísu bara húsmóðir í hlutastarfi utan heimils, og að hluta til í ólaunaðri vinnu, inni á því, en ég hef ekki séð uppnámið í ríkisfjármálunum í tillögum VG. Getur verið að það sé þess vegna sem menn skrifa ekki fréttaskýringar um ríkisfjármálin, að það sé einfaldara og betra í flokkspólitískum tilgangi að halda sig bara við frasana, sem svo auðveldlega geta leitt menn inn á refilsstigu? Mér finnst Davíð heill, en hinir ekki.
kv.
Ólína