Fara í efni

LÖGÐ AF STAÐ Í RÚSSÍBANA?

Ragnheiður Elín var í Kastljósinu í kvöld og endurtók það sem ég heyrði hana segja í útvarpinu um helgina, að hún hafi ekki „fattað upp á" ferðamannapassanum. Hvað á maður að halda þegar sá sem dregur vagninn neitar ábyrgð á leiðangrinum? Það fyrsta sem manni kemur í hug er að þar tali kúskur, sendur af stað nauðugur. Getur verið að íslenskir ráðherrar séu svo aumir?
Getur verið að ráðherrann upplifi sig í raun sem fórnarlamb í þessu máli - að hún hafi verið send í vonlausan leiðangur sem hún verður að klára, þrátt fyrir að það baki henni óvinsældir. Þá er eflaust betra að benda á einhvern annan. Í Kastljósinu í kvöld hafði Steingrímur J. sett einhver lög sem voru rótin af öllu saman, svo komu erlendir ráðgjafar og meira að segja ferðamálasamtök sem höfðu einhverntíma stutt þetta en hætt við (væntanlega eftir umhugsun) voru sérstaklega tilgreind sem frumkvæðismenn. Helgi Seljan var ekki óhultur þarna í settinu þegar vísifingur ráðherrans fór á loft og benti í allar áttir.
Það eru reyndar fordæmi fyrir því á kjörtímabilinu að ráðherrar grípi til svona ráða. Uppskriftin virðist vera þessi. Ef eitthvað bjátar á og einhver spyr þarf fyrst að lýsa yfir hreinlyndi og einlægum ásetningi. Þá má segja eitthvað í líkingu við: Ég gerði ekkert rangt, það var ekki ég, ég vissi ekki af þessu, þetta er runnið undan rifjum annarra, hvernig get ég borið ábyrgð á einhverju sem ég fattaði ekki upp á?
Næsta skref er síðan sjálfgefið þegar flekkleysi ráðherrans liggur fyrir. Viðvarandi mótbyr við slík skilyrði er náttúrulega ósanngjarn. Ráðherrum líður þá illa og þurfa samúð vegna ósanngjarnrar meðferðar. Þá má nefna til sögunnar þjáningar barna og nánustu aðstandenda, ef annað dugir ekki. Það staðfestir hversu óvægnir andstæðingarnir eru að ráðast gegn saklausum börnum . Auðvitað er Ragnheiður Elín ekki komin alla leið í þessum rússíbana, en það má glögglega sjá að hún er lögð af stað. Það verður fróðlegt að sjá tilburðina þegar vandræðin aukast.
Frímann