LÝSUM YFIR STUÐNINGI VIÐ ÞJÓÐSTJÓRNINA Í PALESTÍNU
Íslensk stjórnvöld ættu að sýna þann manndóm að lýsa þegar í stað yfir eindregnum stuðningi við þjóðstjórnina í Palestínu og fylgja þar með góðu fordæmi frænda vorra Norðmanna. Á aðalfundi Félagsins Ísland Palestína var samþykkt ályktun þar sem segir m.a.: “Það er smánarblettur á Vesturlöndum að hafa fylgt Ísraelsstjórn í því að refsa Palestínumönnum fyrir að hafa kosið öðru vísi en þessum stjórnvöldum líkar... Ofbeldinu sem verður að linna er af völdum hernámsins sem nú hefur varað í 40 ár. Það stendur upp á Ísraelsstjórn að viðurkenna gerða samninga, alþjóðalög og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna”.
Stjórn Félagsins Ísland Palestína hefur óskað eftir fundi með Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra um málið. Með þeim fundi verður fylgst, svo og hinu hvort íslensk stjórnvöld hafi manndóm í sér til að styðja við bakið á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Palestínu. Hér á eftir fylgir ályktun Félagsins Ísland-Palestína í heild sinni:
Ályktun,
samþykkt á aðalfundi Félagsins Ísland-Palestína
í Norræna húsinu 21. mars 2007
Aðalfundur Félagsins Ísland-Palestína, haldinn 21. mars 2007
fagnar afstöðu norsku ríkisstjórnarinnar sem hefur viðurkennt þjóðstjórnina sem tekin er við stjórnartaumum í hertekinni Palestínu, rofið viðskiptabannið og bundið þarmeð enda á refsiaðgerðir af sinni hálfu gagnvart íbúum herteknu svæðanna sem verið hafa við lýði í kjölfar kosninganna í janúar 2006.
Það er smánarblettur á Vesturlöndum að hafa fylgt Ísraelsstjórn í því að refsa Palestínumönnum fyrir að hafa kosið öðru vísi en þessum stjórnvöldum líkar. Sigur Hamas-samtakanna í kosningunum var enn ein tylliástæðan fyrir Ísrael til að einangra palestínsk stjórnvöld. Sama einangrunarstefna hefur verið rekin frá fyrstu tíð, það breytti engu hvort Arafat eða Abbas voru við stjórnvölinn. Þetta er stefna hrokafulls nýlenduveldis sem hefur engan áhuga á að ræða eða semja við innfædda íbúa þess lands sem verið er að leggja undir sig.
Aftur og aftur fara fjölmiðlar með þuluna frá Ísraelsstjórn um að palestínsku stjórnvöldin séu ekki reiðubúin að ganga að þremur skilyrðum alþjóðsamfélagsins eins og þessi skilyrði Ísraelsstjórnar eru nú kölluð: Viðurkenning á Ísrael, höfnun ofbeldis og að fyrri samningar séu virtir. Öll þessi atriði standa fyrst og fremst upp á Ísraelsstjórn sjálfa.
Allir forystumenn palestínskra stjórnvalda eru reiðubúnir að viðurkenna Ísrael innan landamæranna frá 1967 sem er í samræmi við alþjóðlög. Ísraelsstjórn neitar hins vegar að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á Gaza og Vesturbakkanum með Austur-Jerúsalem sem höfuðborg.
Ofbeldinu sem verður að linna er af völdum hernámsins sem nú hefur varað í 40 ár. Það stendur upp á Ísraelsstjórn að viðurkenna gerða samninga, alþjóðalög og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísraelsstjórn verður að snúa baki við ofbeldi og kúgun gagnvart nágrönnum sínum og ganga til samninga um réttlátan frið.
Aðalfundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að fara þegar í stað að fordæmi norsku ríkisstjórnarinnar og viðurkenna palestínsku þjóðstjórnina tafarlaust.
Það er framlag til friðar og réttlætis fyrir botni Miðjarðarhafs.
Sveinn Rúnar Hauksson, formaður