Má ég kæra olíufélögin?
Sæll Ögmundur.
Spurnig um verðsamráð olíufélaganna. Hef ég rétt á því að kæra olíufélögin vegna verðsamráðsins? Ég hef ekið um 300.000 kílómetra síðan lög um verðsamráð voru samþykkt árið 1993? Einnig varðandi skýringar ríkislögregæustjóra. Hefur hann dómsvald? Hvað á hann við þegar hann segir að það sé ekki hægt að dæma mann tvisvar fyrir sama glæpinn ? Var einhver að biðja hann um að dæma í málinu?
Kveðja, Andrés Kristjánsson
Komdu sæll og blessaður Andrés.
Þú hefur rétt til þess að kæra olíufélögin. Væntanlega þyrftir þú að leggja fram nótur eða önnur gögn og rökstuðning fyrir því, að þú hafir að öllum líkindum verið hlunnfarinn vegna ólögmæts samráðs. Þann rökstuðning hefur verið að finna á síðum dagblaðanna að unmdanförnu einsog þú veist. Mér hefur skilist á Neytendasamtökunum, að þau séu að íhuga þennan kost. Ríkislögreglustjóri hefur ekki dómsvald. Embættið rannsakar mál og leggur fram ákæru ef ástæða er talin til. Þegar rætt er um að aðili verði dæmdur tvisvar, þá er, eftir því sem mér skilst, um það að ræða, að Samkeppnisstofnun beiti svokallaðri stjórnvaldssekt en síðan gæti viðkomandi hlotið sekt vegna sakhæfs athæfis, sem kæmi fram við lögreglurannsókn. Þetta er hluti af þeim deilum, sem hafa risið um verksvið Samkeppnisstofnunar annars vegar, og Lögreglustjóraembættisins hins vegar. Ríkislögreglustjóri vill að Samkeppnisstofnun ljúki sinni rannsókn eða feli Ríkislögreglustjóraembættinu að öðrum kosti málið til rannsóknar með formlegum hætti en að báðar stofnanirnar séu ekki að rannsaka málið í einu. Samkeppnisstofnun telur hins vegar að rannókn geti farið fram samhliða.
Þannig hafa menn verið að skaka þessu máli fram og til baka. Þessi umræða hefur án efa orðið til góðs því aðilar eru meðvitaðri fyrir vikið um þær brotalamir sem eru í þessari verkaskiptingu. Alþingismenn ræða til dæmis nú hvort lögbinda þurfi samstarfið á milli þessara aðila. Nei, það var enginn að biðja ríkislögreglustjóra að dæma í málinu.
Ég sendi þér bestu kveðjur,Ögmundur