Fara í efni

MÆLIKVARÐINN VERÐI ALLTAF ÞJÓÐARHEILL !

Kæri Ögmundur!
Ég er fullkomlega sammála afstöðu þinni sem kemur fram í pistlunum “HVERN ER VERIÐ AÐ HAFA AÐ FÍFLI? “ og “BANKARNIR RÍFI SIG EKKI FRÁ SAMFÉLAGINU “ á vefsíðunni þinni!
Mér finnst þó að það hefði mátt benda á að enda þótt  “hlutafélagsformið”, geti verið ágætt þar sem það á við og er heiðarlega rekið, hafi mönnum engu að síður tekist að spilla því og misnota eins og önnur efnahags- og þjóðfélagsúrræði. Það á við um þetta mannanna verk eins og mörg önnur, jafnvel sjálft lýðræðið, að því má snúa upp í andhverfu sína. 
Auðmenn og fjármálaklíkur kaupa sér það hlutfall eigna hlutafélagsins sem nægir þeim til að fá stjórn á því og skaffa sér og sínum tekjur og gróða eftir sínu höfði. Hinir eigendurnir í hlutafélaginu sem eru oftast mjög dreifðir og óskipulagðir, eru hjálparvana gagnvart þessu og eiga ekki annarra kosta völ en taka því sem þeim er skammtað, sem yfirleitt er skorið við nögl en þó ekki meira en svo að það nægi til að halda þeim í hlutafélaginu. En þegar aðal hluthöfunum sýnist þá selja þeir hluti sína og ganga frá hlutafélaginu og skilja það eftir sem hvert annað hræ og þar með aðra hluthafa í stór tapi, jafnvel á vonarvöl. Um þetta eru ótal dæmi: Þeir sem höfðu stjórnað hlutafélaginu í nafni meirihluta eigendaklíkunnar, eru á himinháum eftirlaunum og bónusum!  Það þarf ekki annað en að benda á það sem skeði með ENRON í Bandaríkjunum eða hrunið í Bandaríkjunum sem snerti alla heimsbyggðina á síðustu öld. Hlutafélög fara á hausinn daglega í fyrirheitna landinu, Bandaríkjunum.
Það er ekki þar með sagt að hlutafélagsformið eins og annað eignarfyrirkomulag, geti ekki verið ágætt ef allt er með felldu og fyrirtækiseignin hentar því eignarformi á annað borð. Sama má segja t.d. um einkaeignarformið, það getur einnig verið ágætt á sínum stað. Þá er samfélagseignarformið ekki síður ákjósanlegt eignarfyrirkomulag, sem reynist oft best allra, ef vel er rekið. Sérstaklega þegar um er að ræða almannaþjónustu!
Það er einmitt samfélagsform íslensku þjóðarinnar, sem gerði íslenskt þjóðfélag fyrirmynd annarra og íslensku þjóðina ríka, oftast meðal tíu ríkustu þjóða heims. Með sanni má kalla samfélagsformið, einkaframtak, þar sem það byggist á greind og útsjónarsemi, heiðarleika og dugnaði einstaklinga í samvinnu, í þágu þjóðarfjölskyldunnar!
Það skal taka fram að mælikvarðinn byggist á hvað þjóni almenningi, sem sé þjóðarheildinni best.  Þjóðarheill á alltaf að vera sá mælikværði sem stuðst er við. T.d. má einokun aldrei vera í höndum einkaaðila hvort sem um er að ræða samfélagsformið eða annað. Ef einokun er óumflýjanleg, verður rekstrarformið að vera samfélagsformið undir forræði fulltrúa þjóðarinnar  og í þágu þjóðarinnar!

Hvað bankana snertir; þá er eðli þess auðvalds að hóta einstaklingum sem stjórnvöldum og alþingismönnum leynt og ljóst ef þeim finnst eitthvað vanta upp á auðvaldshyggju þeirra og þjónkun við gróðaöflin. Bankar eru hreinar og beinar peningamyllur, eða eins og margir segja, peningasvikamyllur.  ALLIR BANKAR eiga að vera sameign þjóðarinnar og vera reknir í þágu hagsmuna viðskiptavinanna, sem sé almenning í landinu!  Þeim á að vera stjórnað af kosnum fulltrúum þjóðarinnar og Alþingi, ekki einkaaðilum til einkanota og einkagróða!  Þegar einkaaðilar eiga og stjórna bönkunum, þá stjórna þeir lífsafkomu fjölda manns og öðlast ólýðræðislega ókosnir stjórnmálavald , sem getur verið þjóðinni stórhættulegt. Ég tel að það sé lífsnauðsynlegt fyrir lýðræði þjóðarinnar að efla og halda við sparisjóðunum í eign almennings, og jafnvel að bankar verði stofnaðir í eign samfélagsins.  Og láta síðan þessi eignarform keppa á frjálsum markaði, hvert með sínu móti!

Úlfljótur