MÁNUDAGUR Í LÍFI IÐNAÐARRÁÐHERRA: HAMINGJUÓSKIR TIL BECHTEL OG SKEMMTILEG KVÖLDSTUND Í BOÐI ALCAN
Að öllu jöfnu hef ég engan áhuga á að fylgjast með lífi Valgerðar Sverrisdóttur. En hún er nú einu sinni iðnaðarráðherra og kemur fram fyrir hönd okkar allra sem slík. Þess vegna er það í sjálfu sér þakkarvert að hún skuli veita okkur innsýn í líf sitt í dagbók sem hún birtir á heimasíðu sinni.
Austur á fjörðum hefur risasamsteypan Bechtel stórt verk með höndum. Samsteypan tengist hergagnaiðnaðinum bandaríska og hefur oftsinnis sætt mikilli gagnrýni af þeim sökum. Ekki af hálfu iðnaðarráðherra Íslands. Hún má vart vatni halda af hrifningu yfir verklagi fyrirtækisins. Heldur sérstaklega austur á land til að hrósa fyrirtækinu fyrir að "innleiða nýja verkmenningu hér á landi."
Látum þetta nú vera. Hitt þykir mér vafasamara með hvaða hætti samskiptin eru við álrisana. Þar eru "framtíðaráformin" rædd yfir kvöldverði í boði álrisanna í Perlunni! Eftirfarandi er að finna í dagbók iðnaðarráðherra: "Rannveig Rist og Wolfgang Stiller fulltrúi Alcan buðu mér ásamt ráðuneytisstjóra mínum til kvöldverðarfundar í Perluna. Við ræddum framtíðaráform Alcan og ýmislegt fleira. Skemmtileg kvöldstund."
Hér er ekkert snakk á kontór ráðherra eins og þegar minni mál hérlendra eru rædd. Þetta var skemmtileg kvöldstund, sagði ráðherra! Hvað skyldi hún hafa boðið gestgjöfum sínum upp á? Einhverja íslenska náttúruperluna? Hvorki ráðherra né ríkisstjórn víla fyrir sér að bjóða upp á slíkt til að þóknast álrisunum með ódýru rafmagni. Það hefði náttúrulega verið vel við hæfi með tilliti til þess hvar veislufagnaðurinn fór fram.
Ögmundur, ég læt hér fylgja með dagbókarbrot Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra svo enginn þurfi að velkjast í vafa um að hér er ég á engan hátt að skreyta.
Haffi
"Mánudagur 12. desember
Ég flaug með morgunflugi til Egilsstaða.
Ég var sótt á flugvöllinn og síðan var ekið til Reyðarfjarðar.
Kl. 10.00 hófst móttaka í starfsmannaþorpinu í tilefni þess að 1 milljón vinnustunda hafa verið unnar við uppbyggingu álversins á Reyðarfirði án vinnuslysa. Þetta er mjög jákvætt mál og augljóst að verktakinn, sem er bandaríska fyrirtækið Bechtel, er með þessu að innleiða nýja verkmenningu hér á landi sem byggir á ströngum öryggisreglum. Ég ávarpaði samkomuna og óskaði hlutaðeigendum til hamingju með árangurinn. Síðan fórum við í skoðunarferð um álverslóðina.
Það varð seinkun á fluginu til baka frá Egilsstöðum, ég lenti því rétt fyrir kl. 16.00 og fór í ráðuneytið. Ég varð heldur sein í kveðjukaffi sem haldið var til heiðurs Jónvöru Steinhólm, sem lætur af starfi í ráðuneytinu og flytur til heimalandsins Færeyja.
Ég sinnti ýmsu í ráðuneyti fram til kl. 17.30.
Rannveig Rist og Wolfgang Stiller fulltrúi Alcan buðu mér ásamt ráðuneytisstjóra mínum til kvöldverðarfundar í Perluna. Við ræddum framtíðaráform Alcan og ýmislegt fleira. Skemmtileg kvöldstund."
sjá: http://www.valgerdur.is/index.php?frett_id=502&cat=dagbok