Fara í efni

MARKAÐASKERFI TIL EILÍFÐARNÓNS?

Sæll Ögmundur... flott ræða hjá þér í gær en núna ætla ég bæði að spyrja þig og segja þér máski eitthvað sem þú veist sjálfur. Senn mun líklega, verða samþykkt eitt stærsta mál Íslandssögunnar, sennilega síðan það var ákveðið að selja bankana með afleiðingum sem allir vita. Valið stendur á milli "vinstri krata" stjórn næstu þrjú og hálfa árið eða Evrópusamband fyrir eilífð sem þýddi markaðskerfi fyrir eilífð. Báðir slæmir kostir. Ef svo skildi fara að Vinstrihreyfingin grænt framboð myndi samþykkja aðildarumsókn að Evrópusambandinu myndi það styrkja stöðu Vg svo sannarlega gegn Samfylkingunni í stórum málum eins og Icesave deilunni, komandi sölu á bönkunum og öðrum erfiðum málum. Ertu ekki sammála mér í því? Óska eftir skjótu svari en með fullri virðingu fyrir knöppum tíma.
kv.
Ágúst

Ég held að samþykkt um aðildarviðræður muni veikja okkur og styrkja í senn. Þetta er mörgum félögum í VG mjög á móti skapi en með samþykktinni er komið í farveg máli sem hefur haft alltof mikið vægi í íslenskri pólitík um langan tíma. Nú verður einfaldlega kannað hvort við höldum yfirrráðum yfir fiskimiðunum og getum skipulagt landbúnað okkar að vild. Hitt þekkjum við vel, allar girðingarnar og markaðskvaðirnar sem þrengja að lýðræðinu. Vandinn er sá að hið síðastnefnda er fylgifiskur veru okkar á hinu Evrópska Efnahagsvæði. Það var óheillaspor að stíga þar inn á sínum tíma. Hvað endanlega gerist með aðildarumsóknina verður tíminn að skera úr um. Sjálfur tel ég á þessari stundu að henni verði hafnað.
Kv.
Ögmundur