Fara í efni

MEIRIHLUTAVILJI ÞJÓÐARINNAR OG ALÞINGI

 

Sæll Ögmundur.
Ég fagna því að þú skulir bera þá virðingu fyrir Alþingi og ákvörðun kjörinna fulltrúa að draga kostnaðinn við heilbrigðisþjónustuna niður um 6.7 milljarða. Ekki af því ég haldi að þú sért fullkomlega sáttur við ákvörðun meirihluta Alþingis. Fögnuður minn er vegna virðingarinnar sem þú berð fyrir meirihlutaákvörðun Alþingis. Þetta er í samræmi við þær kröfur almennings sem bornar hafa verið fram í mótmælum fólks undanfarna mánuði. Almenningur er nefnilega ekki sem kjósendur einhverjir vitleysingar. Þess vegna er ein krafan sú að efnt verði til kosninga svo menn geti hafnað meirihlutanum, sem ber ábyrgð á því að einmitt í heilbrigðisþjónustunni skuli skorið niður, eins og meirihlutinn ákvað í desember. Ég held að almenningur vilji standa vörð um heilbrigðisþjónustuna, vilji ekki skera svona mikið niður, og ég held líka, að þessi sami almenningur, muni láta þennan vilja sinn koma fram í kosningunum í vor. Þetta er lýðræði, þetta er að skilja til fullnustu hlutverk ríkisstjórnar og framkvæmdavalds annars vegar og Alþingis Íslendinga hins vegar, og fólk skilur þetta. Þú getur hins vegar sem hluti af framkvæmdavaldinu haft nokkuð um það að segja hvernig markmiðum Alþingis er náð. Þetta skilur almenningur líka, þótt þessi aðgreining valdþáttanna vefjist stundum fyrir fréttaskýrendum, sem skreyta sig prófessorsnafnbót í stjórnmálafræðum, eins og ég hefi áður bent á í framhaldi af fullyrðingum prófessors um, að skipan ráðherra, sem ekki njóta þess að vera alþingismenn, sé ólýðræðisleg! Hvernig ætli kennslan um lýðræðið og aðgreiningu valdþáttanna sé á Melunum?

Annað sem mér finnst stjórnmálaskýrendurnir hafa misst af, þegar þeir eru að reyna að túlka mótmæli almennings, er andstyggð almennings á innihaldslausum loforðum og þeim fagurgala, sem stjórnmálaflokkar bera fram opinberlega fyrir kosningar. Fagurgala, sem virðist settur saman með eftirfarandi hætti: Fyrst taka menn fallegar myndir af frambjóðendum, svo fara myndirnar í fótósjoppuna, ákveðið er hvernig bæklingurinn skuli líta út og svo eru fengnir PR menn til að semja áferðarfallegan texta í plássið. Svona segir hún systir mín að þetta sé gert, en hún hefur unnið við gerð bæklinga. Hún sendi mér kosningabækling Sjálfstæðisflokksins, útgefinn fyrir kosningarnar 2007, en honum var potað í öll pósthólf landsmanna í aðdraganda kosninganna. Þar er mikið talað um trausta efnahagsstefnu, efanhagslegan árangur og hve spennandi það er að horfa til framtíðar með fast land undir fótum. Úff, ekki vildi ég bera ábyrgð á riti þessu. "Flottur bæklingur" og mikið afskaplega væri gott ef veröldin væri svona. Að hana mætti afmynda í fagurri birtu, svo mætti laga og setja í fótosjoppuna og smyrja svo sakleysislegum texta yfir. Bara að veröldin og lífsbaráttan væri svona. Og svo eru þeir allir bindislausir, frjálslegir, nema Björn Bjarnason sem er með hálstau, enda myndin tekin útí Engey. Svona verk þyrfti að endurútgefa, og jafnvel árita. Mér dettur í hug að þið Vinstri græn fáið leyfi Sjálfstæðisflokksins til að endurútgefa bæklingin. Gæti orðið ykkur tekjulind því ég er viss um að margir vildu eiga bæklinginn sem minjagrip um veröld sem var.

Svo fór ég að lesa bæklinginn þar sem þau tróna, formaðurinn og varaformaðurinn fyrir hönd flokksins við yfirskriftina: Þegar öllu er á botninn hvolft er TRAUST EFNAHAGSTJÓRN stærsta velferðarmálið.

Þetta er afstrakt alveg rétt, en er marklaust af því efnahagsstjórnin var alls ekki traust. Samfylkingin hélt því fram fyrir kosningarnar og átti kollgátuna að hægur austanvindurinn gæti feykt efnahagslífinu á hliðina. Og ykkar flokkur, VG, hélt þessu fram með rökum, þegar árið 2005 og alla tíð síðan, samanber þingsályktunartillagan ykkar, þar sem segir í þessu sambandi, að það verði að hemja bankana og efla eftirlitið með þeim af hálfu seðlabankans og fjármálaeftirlitsins, því efnahagur þeirra stefndi þjóðarbúinu í þrot. Ég man ekki betur.

Og við flettum bæklingnum. Á bls. 2 í kosningabæklingnum kemur svo formaður Sjálfstæðisflokksins undir yfirskriftinni Það er samhengi í hlutunum og skýrir þessa Traustu efnahagsstjórn

Árangur Íslendinga í efnahagsmálum er óumdeildur, segir formaður Sjálfstæðisflokksins. Rangt. Efnahagsstarfsemin var á brauðfótum, skuldir bankanna lágu fyrir, skuldir heimilanna voru þá gríðarlegar, skuldir fyrirtækjanna voru þannig, að fæst gátu greitt skuldirnar niður og skattalagabreytingar fráfarandi ríkisstjórnar, einkum þær þar sem sköttum var áfram aflétt af fyrirtækjum, voru eins og olía á þann eld sem kviknað hafði í kjallara efnahagslífsins. Þetta gátu bæði útlendir fræðimenn og íslenskir séð, en bankarnir og sjálfstæðismennirnir í bönkunum, og ráðuneytunum, sammæltust um að vísa allri gagnrýni á bug, sem röfli og öfund. Hvað sagði ekki viðskiptaráðherrann núverandi, og Þorvaldur Gylfason, að ekki sé nefndur Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur. Þeir höfðu uppi sömu varðnaðarorð og VG!

Árið 2007 töldu forystumenn Sjálfstæðisflokksins að velferðin hvíldi á öflugum útrásarfyrirtækjum, eins og formaðurinn segir í kosningabæklingnum: Öflugt efnahagslíf hefur blómstrað og íslensk fyrirtæki hafa leitað út fyrir landsteinana og hafið útrás.

Vorið 2007 var þetta rugl. Haustið 2008 var þetta rugl, og nú þegar kosningabaráttan er að fara í gang er þetta líka rugl.

Auðvitað er það meðal annars þetta sem fólk mótmælti við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Af hverju draga prófessorarnir í stjórnmálafræði ekki þessa kosningabæklinga ekki úr pússi sínu og setja þessi loforð, þessa grunnhyggni og þessa afmyndun veruleikans í sitt pólitíska samhengi?

Svarið við þeirri spurningu er áhugaverðara en hvort Steingrímur Sigfússon gefur út hvalakvóta til 2015. Mér hefði fundist áhugaverðara í hvalamálinu, að heyra frá stjórnmála- og stjórnlagafræðingum álit á því, hvort Einar K. Guðfinnsson gekk gegn starfsskyldum sínum sem ráðherra er hann með reglugerð gaf út hvalakvótann.

Mig langar líka að vita hvaða úrræði menn hefðu á Alþingi kæmust menn að ráðherranna hefði farið út fyrir valdmörk sín. Umræður af þessu tagi mega ekki drukkna í spekúlasjónum um nýja stjórnarskrá. Eins og ég skil málið ættu menn að skoða lögin um ráðherraábyrgð í þessu sambandi. Þar stendur allt skýrt og viðurlögin eru þar klár og hér erum við að tala um formlega ábyrgð ráðherra, en ekki pólitíska sem háð er hefðum, reglum og siðferði. Alveg eins og viðurlögin við athæfi, sem skilgreint er sem landráði er klár, ef dómsstólar kæmust að því að fall íslenska samfélagsins, og hegðan stjórnenda bankanna, varðaði við þau lög. Það vantar ekki viðurlögin. Það skortir hins vegar nokkuð á hugrekki manna til að nota lagafyrirmælin. Til dæmis lagafyrirmæli um ábyrgð stjórnenda hlutafélaga. Þau ná væntanlega til stjórnarkarla-og kvenna Landsbanka, Glitnis og Kaupþings alveg burtséð frá því hvar menn standa í samfélaginu, burtséð frá því hvort stjórnarmaðurinn er í saumaklúbbi, er vinur eða vinkona, eða er jafnvel í bókmenntaleshring með þeim, sem gæti verið gerandi í málinu nú. Ég hugsa að börnum mínum og barnabörnum muni til dæmis ekkert svelgjast á að taka sér hugtakið "landráðaskattur frjálshyggjunnar" í munn, þegar þau átta sig á því að fullu, að frjálshyggjan hefur rænt þau frelsinu um ókomna tíð.

Hvalamálið. Er ekki best fyrir ykkur að fagna frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur, láta hana bera fram á Alþingi lagafrumvarp um hvalveiðar og láta Alþingi bera þannig ábyrgð á málinu. Þá getur þjóðin sagt sitt í kosningum. Lýðræðið snýst jú um að fólkið ræður.

Að lokum þetta. Ég fagna skoðun þinni á seðlabankastjóranum, Davíð Oddsyni, sem fram kemur á heimasíðu þinni. Veruleikinn er ekki jafn svart-hvítur og ætla mætti af umræðum um hann. Það er afsúrt að skrifa vantraustið á íslenska efnhagslífinu á einn mann. Alveg jafn afsúrt er það að halda, að með einum nýjum bankastjóra breytist vantraust í traust. Í þeirri skoðun liggur sama afmyndun veruleikans og sú sem gegnsýrir kosningabækling Sjálfstæðisflokksins sem barst Íslendingum á útmánuðum 2007. Það er einmitt þessi þrönga hugsun, sem veldur því að menn virðast eiga erfitt að greina á milli seðlabankastjórans Davíðs, og stjórnmálamannsins Davíðs, sem á löngum ferli gerði sumt laglega, en getur aldrei losnað undan því að halda fram stefnu Sjálfstæðisflokksins og því að bera ábyrgð á útfærslu frjálshyggjunnar í 18 ár Að lokum þetta. Ég fagna skoðun þinni á seðlabankastjóranum, Davíð Oddsyni, sem fram kemur á heimasíðu þinni. Veruleikinn er ekki jafn svart-hvítur og ætla mætti af umræðum um hann. Það er afsúrt að skrifa vantraustið á íslenska efnhagslífinu á einn mann. Alveg jafn afsúrt er það að halda, að með einum nýjum bankastjóra breytist vantraust í traust. Í þeirri skoðun liggur sama afmyndun veruleikans og sú sem gegnsýrir kosningabækling Sjálfstæðisflokksins sem barst Íslendingum á útmánuðum 2007. Það er einmitt þessi þrönga hugsun, sem veldur því að menn virðast eiga erfitt að greina á milli seðlabankastjórans Davíðs, og stjórnmálamannsins Davíðs, sem á löngum ferli gerði sumt laglega, en getur aldrei losnað undan því að halda fram stefnu Sjálfstæðisflokksins og því að bera ábyrgð á útfærslu frjálshyggjunnar í 18 ár ásamt nánustu samverkamönnum sínum. Það getur hins vegar aldrei varðað við lög. Þjóðin kveður upp sinn dóm um það stjórnarfar í vor.

Ég ætla á næstunni að fara yfir kosningabækling X-D til að varpa ljósi á að það hvernig Sjálfsstæðisflokkurinn afmyndar tilveruna fyrir kosningar í bæklingum sínum. Fjalla um 400 hjúkrunarrými Ástu Möller sem ekki voru reist, hvernig Grazyna Okuniewska lofaði að fella niður almenna tolla á innflutningi, hvað Guðfinna Bjarnadóttir hefur gert á umhverfissviðinu, hvað Illugi og Guðlaugur Þór ætluðust fyrir á orku- og útrásarsviðinu (man nokkur eftir upphafsmönnum orkuútrásarinnar RAY og GGE) og eitt og annað smálegt í þessum bæklingi og öðrum. Svo hvet ég aðra lesendur til að fara yfir það hvernig Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa með beinum og óbeinum hætti stutt við Sjálfstæðisflokkinn hugmyndalega undanfarin ár. Hef í gegnum tíðina safnað öllum ályktunum og samþykktum, sem þessi samtök hafa sent frá sér og birt á heimasíðum sínum. Sumt vildu þeir vafalaust að þeir hefðu aldrei sett á vefi sína, en það sjáum við fyrst þegar þeir fara að tína það efni af vefjunum. Og svo mun ég fjalla um þá hugmynd að flokkur, sem hefur þetta 18 til 23 þingmenn af 63, telur sig alltaf vera í meirihluta á Alþingi, og hafi eitthvað sérstakt umboð kjósenda til valdbeitingarstjórnmála, eins og aðrir flokkar séu ekki til. Sá vandi snýr líka að forystumönnum annarra flokka sem átta sig ekki á raunverulegri stöðu Sjálfstæðisflokksins.
Kveðja
Ólína