MELABÚÐIN KVÖDD
Blessaður Ögmundur.
Í dag hætti ég að kaupa inn í Melabúðinni. Ástæðan er sú að kaupmaðurinn vinsamlegi setti Melabúðina undir pólitískan áróður Heimdalls og tróð sjálfur upp í auglýsingu fyrir bjórsölu og léttvíns í búð sinni. Ég hef verslað í Melabúðinni í áratugi, en nú er það sem sé búið. Ég vona að fleiri fylgi fordæmi mínu þar til kaupmaðurinn biðst forláts. Mér finnst að kaupmenn, bankastjórar, og þeir sem eiga allt sitt undir okkur, kúnnunum, ættu að reyna að átta sig á því að það erum við, neytendur, sem erum uppspretta velgengni þeirra. Þess vegna ber að sýna okkur tillitssemi og virðingu. Hættum að skipta við kaupmenn sem okkur mislíkar við, tökum út fé úr bönkum sem afskrifa skuldir óreiðu- og glæpamanna og hættum að styðja flokka sem eru til fyrir sjálfa sig.
Kveðjur,
Jóna Guðrún