MERKILEGUR ÞÁTTUR UM MERKISMANN
Ég varð hugsi eftir að ég las pistil þinn um Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóra hér á síðunni 18. júní, daginn eftir þjóðhátíðardaginn. Ég þakka þér fyrir að vísa á slóðina á útvarpsþátt Gunnars Stefánnsonar, þess ágæta útvarpsmanns, um Andrés. Ég er búinn að hlusta á þáttinn allan tvívegis. Hann er mjög góður og minnir á gamla daga - en einnig nýja. Sá samanburður er ekki alltaf góður. Peninga- og braskómenningin er nefnilega farin að setja óþægilega sterkt svipmót á allt okkar þjóðlíf. Hvar eru líkar Andrésar Björnssonar nú? Auðvitað eru þeir til. En er þeim hampað í stofnanaveldi Íslands nú um stundir? Þar þurfa menn að geta sýnt hörku í samskiptum, yfirgang og græðgi til að komast áfram. Þeir sem leggja rækt við hin mildari og dýpri gildi - eru með öðrum orðum á dýptina - eiga hins vegar ekki upp á pallborðið. Við þyrftum alla vega að fá meiri blöndu. Þjóðlífið verður ella skelfilega flatt.
Með bestu kveðju,
Grímur
Þakka þér bréfið Grímur. Ég er hjartanlega sammála þér. Andrés Björnsson var um margt mjög merkilegur maður. Hann var ekki aðeins maður menningar og fróðleiks heldur var hann einnig frumkvöðull að mjög mörgum nýjungum í starfi Ríkisútvarpsins og held ég að hann sé fyrsti Íslendingurinn sem aflaði sér menntunar á sviði fjölmiðlunar auk þess sem hann var menntaður í íslensku og íslenskum bókmenntum. Ég vek athygli á að til er geisladiskur með upplestri Andrésar Björnssonar sem ég hygg að sé hægt að fá keyptan hjá RÚV.
Með góðri kveðju,
p.s. sjá umrædda umfjöllun HÉR