MIKIÐ SKRIFAÐ UM KREPPUNA - EN ALLT EFTIRÁ!
Í samhengi þess sem þú ritar um afstöðu Þórólfs Matthíassonar í norskum blöðum þá er vert að rifja upp ummæli hans frá því snemmsumars 2009 þar sem hann minnti þá sem ekki vildu gera upp kröfur vegna Icesace að þeir myndu fljótt komast á stall með Norður Kóreu og Kúbu ef þeir væru ekki stilltir.
Í huga Þórólfs var Icesave skuldbindingin smávægilegt vandamál í samhengi væntanlegra refsiaðgerða og einangrunar þjóðarinnar. Hin mesta bölvun skapast af því að taka ekki við láni á þeim kjörum sem okkur voru fyrst rétt. Ef við tókum ekki þessu ágæta boði Breta og Hollendinga segir Þórólfur að við þurfum að greiða fyrir skuldir okkar með afgangi af viðskiptajöfnuði og senda íslenska ríkið í greiðsluþrot á skömmum tíma.
Þetta vandamál með að greiða skuldir í erlendri mynt með afgangi af greiðslujöfnuði er eitthvað lögmál sem virðist ekki gilda lengur ef við segjum "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Án þess að þekkja þankagang Þórólfs get ég mér þess til að þá fari í gang það sem kallað er efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar skilst mér af fjölmiðlaumfjöllun að verði mesti viðskiptajöfnuður á sögulegum tíma, auk þess sem heimtur af eignum íslenskra banka erlendis verður afar góð. Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem komið hefur í ljós að eignasafn sem íslenskir bankamenn hafa sett saman erlendis sé í svona ógnarfínu standi. Sjónarhóll hagfræðinnar færir okkur þannig áhyggjulaust ævikvöld í efnahagslegu tilliti hið minnsta ef við veljum bara réttan valkost af þessum tveimur. Það veldur manni þó vissum áhyggjum að hagfræðingar hafa stundum kvartað yfir því að veröldin falli ekki alltaf að niðurstöðum þeirra.
Íslenskir hagræðingar hafa skrifað mikið um kreppuna en bara eftir að hún reið yfir. Ef marka má þá reynslu þá er ég þess ekki fullviss að Þórólfur og kollegar hans séu óskeikulir vegvísar um hvorar dyrnar leiði til kreppu og hvorar til velsældar. Það eru þó til hagfræðingar sem skrifa skynsamlega um efnahag þjóða sem skulda mikið í erlendri mynt. Jón Daníelsson er sá eini innlendi sem ég man eftir. Þeir vara að jafnaði við hættu á banvænum vítahring þar sem há skuldsetning í erlendri mynt þrýstir á viðskiptajöfnuð til lækkunar sem þrýstir á gengi til lækkunar. Ef efnahagslíf verður fyrir minnsta áfalli er hætta á að gengið bresti sem hækkar erlendar skuldir mældar í heimamyntinni. Ef þessi spírall fer af stað er fátt til bjargar. Þórólfur losar okkur undan þessu áhyggjuefni með því að gefa sér að efnahagsleg velsæld taki við þegar við höfum valið að gangast undir Icesave, en óttast vöndinn ef við gerum það ekki.
Árni V.