MIKILVÆGUR ÖRYGGISVENTILL
Það vekur eftirtekt að margir hafa áhyggur af því að forsetinn hafi einangrast og Ólafur persónulega sé vinafár orðinn. Margir stuðningsmanna hans eru sagðir kolbrjálaðir, til að vitna í Kastljósið, og staða forseta þar með erfið. Til að kóróna þessa persónulegu og smásmugulegu sýn á stöðu íslenskra stjórnmála hefur líka verið sagt að það geti ekki verið lýðræðislegt að einn maður taki svo afdrifaríka ákvörðun. Það er oft sett í það samhengi að Ólafur persónulega hafi tekið sér vald sem hann átti ekki með réttu og þannig rænt völdum. Þá er spurt hvort Ólafur eigi ekki bara að taka við stjórnarráðinu úr því hann ætlar að skipta sér af öllu. Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi mætti ætla að nærtækara væri að skýra framvindu mála með vísan til embættisfærslu forseta en persónu Ólafs. Hitt atriðið endurspeglar frámunalega litla þekkingu og skilning á sögu og þróun stjórnskipunar Vesturlanda. Yngri stjórnmálafræðingar og álitsgjafar þekkja margir þingræðið og vita að það er gott. Það tengist líka þrígreiningu ríkisvaldsins sem temprar möguleika hvers valdstofns ríkisins til að drottna yfir öðrum. Það er líka gott. En þegar litið er yfir svið stjórnskipunar eru þetta ekki algildar lausnir á stjórnskipan. Menn hafa vantreyst valdhöfum jafnlengi og ríkisvald hefur verið í höndum einstaklinga. Heimildir forseta Íslands verður að skoða í þessu ljósi. Öryggisventill eins og þessi getur haft áhrif án þess að vera nokkurntíma beitt. Bara það að menn vita af honum þýðir að það er mótvægi í kerfinu sem hægt er að beita. Þetta er mikilvægasta hlutverk forsetaembættisins í íslenskri stjórnskipan. Það er einkennir þetta vald er að það er falið einum einstaklingi og hans dómgreind ræður hvernig með það er farið. Það er að sjálfsögðu hjóm eitt að halda fram að nú sé kerfið allt ónýtt vegna þess að forseti hafi vísað máli til þjóðarinnar. Það þýðir miklu frekar að nú vitum við að kerfið virkar. Baki forseti sér persónulegar óvinsældir hjá gömlum vinum sínum þurfa þeir bara að ræða það í sínum hópi en það er óþolandi að heyra alla stjórnmálaskýrendur landsins taka upp umræður um félagslega einangrun Ólafs Ragnars.
Árni V.