Minjagripagerð forseta Íslands
Það vakti athygli mína að forseti Íslands skyldi á hátíðarstundu velja sér þemað að mæra forystumenn stjórnarflokkanna. Mér fannst óviðeigandi að gera þá að einhverjum sérstökum þjóðlegum minjagripum á hátíðarstundu Alþingis. Það hefði farið betur á að gera þetta á árshátíð stjórnarráðsins, eða í einu af lokuðu partíunum sem haldin eru í Bessastaðahreppi. Það eru nefnilega að minnsta kosti tvær hliðar á þeim gljáfægða gullpeningi sem forseti dró úr pússi sínu í ávarpi sínu til þjóðarinnar 1. október 2004. Víst hefur samfélagið breyst og vissulega hefur almenn velsæld hér aukist á 13 árum, en í sveit og bæ utan höfuðborgarsvæðisins er bæði átakanleg stöðnun í atvinnulífi og átakanlega fátækt er þar líka að finna. Svipaðar aðstæður stórra þjóðfélagshópa er einnig að finna í þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Auðgildið var sett ofar manngildinu, svo vitnað sé til þess mæta manns, Steingríms Hermannssonar, og afleiðingar þess hafa ekki látið á sér standa. Það er tímabært að einhverjir flokkspólitískra samferðamanna forsetans rétti honum fjarsýnisgleraugu í stað nærsýnisglerjanna sem hann virðist ganga með þessa dagana. Þá er ég viss um að hann áttar sig á afleiðingum þess sem hér hefur verið að gerast í atvinnu og efnahagslífi frá því hann sjálfur lét af embætti fjármálaráðherra. Óskir forseta til handa Davíð Oddssyni vegna erfiðra veikinda voru viðeigandi og þar talaði forseti af reisn fyrir hönd þjóðarinnar, en minjagripagerðin var jafn óviðeigandi og skrípamyndirnar sem Morgunblaðið birti af veikindum forsætisráðherra í sumar. Í báðum tilvikum afhjúpuðu stofnanirnar tvær taktleysi sitt.
Stefán