Fara í efni

MÓÐUHARÐINDI Í NÁND?

Kosið verður til Alþingis á vori komanda og allra veðra von. Við hægrimenn, og á ég þá að sjálfsögðu við okkur framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, verðum að halda vöku okkar næstu mánuðina. Skylda okkar nú sem fyrr er að gera þjóðinni grein fyrir þeirri vá sem af vinstrimönnum stafar, sérstaklega þó af  “hryðjuverkamönnunum” í VG eins og okkar ágæti þingflokksformaður, Hjálmar Árnason, kallar hina lygnu og kjaftforu forsprakka þeirra með réttu.

Ágætur og tímabær pistill Sigurðar P. Þorleifssonar í Velvakanda Morgunblaðsins hinn 8. september sl. hristi ærlega upp í mér og minnti mig á að nú er vitjunartíminn að renna upp. Greinarstúfur Sigurðar sem ber yfirskriftina “Skelfilegar afleiðingar” er bæði málefnalegur og rökfastur en undiraldan er að sjálfsögðu þung enda framtíð íslensku þjóðarinnar í húfi. Mig langar að fá að birta hér pistil Sigurðar, hefja kyndilinn á loft í því skyni að upplýsa fólk og eins í þeirri von að ýta nú úr vör málefnalegri umræðu um þau sannkölluðu móðuharðindi sem vinstrimenn munu breiða yfir land og þjóð komist þeir til valda. Pistill Sigurðar P. hefst með svofelldum varnaðarorðum: “ÍSLENSKA þjóðin verður gjaldþrota ef baráttumál Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra ná markmiðum sínum: Að hætta við og slá á frest öllum virkjunarframkvæmdum á Íslandi.” Hér gengur greinarhöfundur rösklega til verks og ég tek heils hugar undir orð hans. Án Kárahnjúkavirkjunar og frekari stórvirkjana verður þjóðin gjaldþrota, þjóðarskútan siglir í strand og kemst hvorki aftur á bak né áfram, rétt eins og hver önnur bifreið með bilaðan rafal og tóman rafgeymi.

Sigurður varpar afar skýru ljósi á innræti öfgaaflanna til vinstri og hefði lýsingin, sem er þó greinargóð, allt eins mátt vera nákvæmari. En kjarni málsins kemst til skila og hann er þessi: “Þeim [vinstrimönnum]hefir tekist að blekkja þjóðina með lævísum lygaáróðri, að heilaþvo þjóðina og í könnunum sópa þeir til sín fylgi. Er þetta það sem þjóðin vill? Gerir þjóðin sér grein fyrir hinum hrikalegu afleiðingum? Nei, það held ég ekki.” Nei, þjóðin virðist ekki átta sig á hinum skelfilegu afleiðingum en það er okkar hlutverk að leiða hana í allan sannleikann um yfirvofandi hörmungar.

Auðvitað er Kárahnjúkavirkjun og allur gróðinn af henni Sigurði P. Þorleifssyni hugleikinn – enda starfræksla hennar spurning upp á líf eða dauða fyrir þjóðina - og hann dregur upp sannverðuga mynd af því hvernig vinstrimenn munu snúa því stórkostlega ævintýri upp í hryllilega martröð. Sigurður segir: “Hugsið það ef bara Kárahnjúkavirkjun einni yrði slegið á frest, þó ekki væri nema í eitt til tvö ár, þá kostar það þjóðina 400 milljarða í beinar skaðabætur, auk þess stæðu fleiri þúsund manns uppi með hálf- eða fullbyggð hús og aðrar eignir verðlausar. Atvinnuleysi og upplausn sem engan órar fyrir, afleiðingarnar yrðu skelfilegar.

Þetta yrði stórkostlegasta áfall allra tíma fyrir íslensku þjóðina.”

Já, öll röskun á rafmagnsflæði frá Kárahnjúkum yrði ekkert annað en rothögg fyrir íslenskt efnahagslíf og reyndar sýnist mér að skaðinn yrði enn meiri en Sigurður áætlar. Eftir að hafa sett allar breytur inn í dæmið er niðurstaða mín sú að þjóðin mundi tapa 952 milljörðum króna á tveimur árum. Og rétt er að hryðjuverkaöflin til vinstri svari eftirfarandi spurningu; hvar ætla þau að sækja það fjármagn? Á kannski að tína fjallagrös og prjóna lopapeysur upp í þá upphæð?

Já, svona eru nú plönin hjá stríðsmönnum sósíalismans, eða eins og Sigurður P. Þorleifsson segir réttilega: “Þetta boða vinstri flokkarnir í dag, sérlega Steingrímur J. og hans fólk. Já, vel á minnst. Vinstri grænir stórauka við sig fylgi. Er ekki kominn tími til að þjóðin fari að taka afgerandi afstöðu og sjá í hvað stjórnmálin eru komin?” Jú vissulega er kominn tími til að landsmenn sjái í gegnum blekkingarvef vinstrimanna og á ég þar auðvitað sérstaklega við Vinstri græna en sú hryðjuverkagrúbba hefur fitnað eins fjandinn á fjósbitanum á undanförnum misserum og mánuðum. Þann ógnarvöxt verðum við að stöðva!

En hvernig eigum við að bregðast við þeim þeim stórkostlegu hamförum og hörmungum sem fylgja munu vinstriöflunum komist þau til valda. Við framsóknarmenn höfum kosið okkur nýja forystu og það vil ég segja um nýja formanninn okkar að hann er eins og klerkur í hafinu, heilsteyptur og einbeittur í lífsins ólgusjó enda hefur hann starfað undir verndarvæng flokksins alla sína tíð. En það þarf meira til eins og Sigurður P. Þorleifsson bendir réttilega á. Við verðum að taka höndum saman, við verðum öll sem eitt að taka þátt í kröftugu átaki gegn yfirvofandi móðuharðindum af völdum vinstrimanna. Lokaorð Sigurðar eru þessi:“Að lokum skora ég á alla ritfæra menn og fjölmiðla að taka meiri þátt í að upplýsa þjóðina um áætlanir vinstri öfgamanna, sem vilja steypa þjóðinni í glötun. Af landinu lifa menn og hafa alltaf gert.”

Undir allt þetta tek ég og miklu meira ef því er að skipta. Baráttan fyrir áframhaldandi og ábatasömu stjórnarsamstarfi okkar hægrimanna er hafin. Þá baráttu verðum við að heyja með heiðarleikann og málefnalega umræðu að vopni – eins og jafnan fyrr - þá er okkur sigurinn vís. Fram til orustu nú!

Jón Bisness, athafnaskáld