MR. HUMPHREY OG FÉLAGAR
Ágæt og þörf var fyrirspurn Ólafar Nordal um greiningu á því hvers konar kröfur stæðu á bak við nauðungaruppboð frá hruni. Einkennilegur kansellítónn var hins vegar í svörum Dómsmálaráðherra. Margir mannmánuðir, mikið verk að kanna etc. Maður næstum heyrir röddina í Mr. Humphrey í Yes Minister. Það er ekkert verk mikilvægara en að reyna skilja stöðuna sem við erum í á Íslandi og alveg hægt að fiska einhverja atvinnulausa fræðimenn í slíka rannsókn, sem sennilega tæki nú ekki nema ca. mánuð fyrir tvo menn. Gylfi Magnússon var frægur fyrir það í fyrra að ætla láta athuga stöðu heimilana og vera búinn að því innan tveggja ára. Líklegt er að þá einsog nú hafi slyngir ráðuneytismenn sannfært ráðherrann um að ómögulegt sé að kanna hvað sé á bak við 2 þúsund nauðungaruppboð. Þannig hafi skilaboðin úr iðrum ráðuneytisins hljómað. Vonandi tekst núverandi Dómsmálaráðherra að sjá við Mr. Humphreys og félögum hans, þótt Gylfi hafi fallið í gildruna.
Hreinn K