Fara í efni

NOKKRAR ÁBENDINGAR Í KJÖLFAR FRÉTTA UM SKORTSÖLU LÍFEYRISSJÓÐA

Ég hef ekki fylgst með þessu máli - en ef ég skil rétt þá er hér um stórmál að ræða.
1.  Lífeyrissjóðirnir eru stórir hluthafar í íslenzku bönkunum.
2.  Bankarnir hafa ekki nægilegt lánstraust erlendis þessa dagana.
3.  Afleiðingar þessa eru ófyrirsjáanlegar - en geta orðið alvarlegar fyrir bankana og hluthafa þeirra.
4.  Skortur á lánstrausti erlendis er því líka mál sem snertir hagsmuni lífeyrissjóðanna.
5.  Erlend verðbréf vega mikið í eignasafni lífeyrissjóðanna.
6.  Við núverandi aðstæður á alþjóðalánamarkaði getur það skipt sköpum fyrir bankana að fá slík bréf að láni til veðsetningar erlendis.
7.  Með þessu myndi áhættan, sem gerir bönkunum erfitt fyrir á alþjóðalánamarkaði, flytjast yfir á herðar lífeyrissjóðanna.
8.  Bandaríska fjármálafyrirtækið Bear Stearns lenti í hliðstæðum hremmingum fyrir stuttu.
9. J. P. Morgan hljóp þá í skarðið fyrir tilstilli Seðlabanka BNA - en þvertók fyrir að taka á sig áhættu af því tagi sem íslenzk stjórnvöld búast nú til að láta lífeyrissjóðina takast á herðar.
10.  Hluthafar Bear Stearns töpuðu skyrtunni við björgunaraðgerð bandarískra stjórnvalda og J. P. Morgan.
11.  Ráðagerð íslenzkra stjórnvalda miðar að því að tryggja hluthöfum íslenzku bankanna mýkri lendingu.
12.  Lendingu, sem getur að sama skapi reynst eigendum lífeyrissjóðanna - íslenzkum almenningi - dýrkeypt.

Ég endurtek að ég hef ekki fylgst með þessu máli - en sá frétt um það á RÚV í kvöld.
Ofangreindar hugleiðingar endurspegla það sem mér finnst vera "lógíkin" í málinu.
Ef svo er í raun og ráðagerðir stjórnvalda ná fram að ganga, þá er það eitt hugsanlega til bjargar hagsmunum lífeyrisþega að aðsteðjandi kreppa á peninga- og efnahagsmálum heimsbyggðarinnar gangi hratt yfir - og verði ekki mikið verri en þegar er orðið. Ef þær væntingar ganga ekki eftir, þá ...
Gunnar Tómasson