NOKKRIR HRÆDDIR HÉRAR AÐ VERJA VALDIÐ...
Sæll Ögmundur.
Sú gíruga þoka sem hefur lengi umlukið margar valdastofnanir þessa lands hefur -meðvitað eða af hugsanaleti- leitt marga á villigötur. Grein þín um "Lýðræði eða forræði?" er mjög góð lýsing á annarlegum sjónarmiðum nokkurra vörslumanna valdsins í "akademíunni". Þeir mættu rifja upp að Akademían var upphaflega sett á laggirnar af Plató á helgistað Aþenu, já Aþenu, gyðju viskunnar. Þeir mættu líka minnast þess að allir menn, nema þá kannski siðblindingjar, vita hvað réttlætið er. Skuggi gilda okkar mannanna, hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu, er sameiginlegur skv. frummyndakenningu Plató. Vilja þeir kannski setja kenningar Plató á bálið? Hversu langt á forræðishyggja þeirra að ganga. Nei, engin mál eru of flókin -amk. í heimi okkar mannanna- til að þau þoli ekki heiðarlega og upplýsta umræðu og í framhaldinu ákvörðun -já þjóðarinnar- okkar mannanna, því um mannanna verk og hugsanir erum við nú bara að fjalla um. Hér eru engir guðir á ferð, bara venjulegt fólk og svo nokkrir hræddir hérar sem vilja verja vald sitt og sinna í pólitískri "rétthugsun" og um leið að umlykja sig þokukenndri forræðishyggju. Svoleiðis hugsun gengur alls ekki til frjórrar og vænlegrar framtíðar. Við verðum að muna að sólin skín alltaf, þó sýn okkar á veðrið sé misjöfn eins og dagarnir. Tek svo að lokum undir orð Ólínu að við kærum okkur alls ekki um hin síð-sovésku viðhorf, Stakhanov-ismann, þar sem stritað er, en án nokkurs vits. Þjóðin er vön að strita, en nú vill hún vit og vitiborna umræðu. Svo ráðum við okkar örlögum, og það án forsjárhyggju þeirra sem telja sig guði.
Pétur Örn Björnsson