Fara í efni

NÚ ER KOMIÐ AÐ ÞÉR ÓLAFUR RAGNAR

"...ég hef skynjað það hér að menn eru fullir eftirvæntingar og finnst spennandi að sjá hvað íslensku fyrirtækin eru að gera því þeir sjá það líka sem fordæmi sem Danir geta fylgt sjálfir." Ólafur Rangar Grímsson, forseti Íslands, í Sjónvarpinu að loknum fundi með Hannesi Smárasyni og fleiri útrásarmönnum í Kaupmannahöfn í febrúar 2007.

"Vöxturinn milli ára er nánast ótrúlegur, sérstaklega með tilliti til þess að árið 2006 var að mörgu leyti erfitt íslenskum bönkum eins og menn vita hér í Danmörku, vegna umræðu í öðrum löndum um íslenska bankakerfið. Það hafa runnið upp nýir tímar fyrir smærri og meðal stærri ríki, sem áður gátu ekki beitt sér með sama hætti og við gerum nú." Ólafur Rangar Grímsson, forseti Íslands, á Stöð 2 að loknum fundi með Hannesi Smárasyni og fleiri útrásarmönnum í Kaupmannahöfn í febrúar 2007.

"Ýmsir eiginleikar íslenskrar viðskiptamenningar og íslensks samfélags nýtast vel á heimsmarkaði. Íslensk vinnusemi, það að við höfum náin tengsl hver við annan, erum ekki bundin af svona skrifræðisbáknum eins og mörg önnur ríki. Allt þetta hjálpar okkur mjög til þess að vera fljótir til verka." Ólafur Rangar Grímsson, forseti Íslands, á Stöð 2 að loknum fundi með Hannesi Smárasyni og fleiri útrásarmönnum í Kaupmannahöfn í febrúar 2007.

"Já, mér finnst vera þörf á því, vegna þess að orðspor viðskiptalífsins á Íslandi, orðspor efnahagslífsins er orðið það mikilvægt fyrir það álit sem við Íslendingar njótum í veröldinni, að það er alveg nauðsynlegt fyrir forsetann að rétta þar hjálparhönd einsog fyrirrennarar mínir gagnvart menningunni og arfinum að þá er staða Íslands í veröldinni í dag orðin mjög háð því að menn líti með jákvæðum augum á það sem okkar athafnamenn eru að gera." Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, aðspurður í útvarpi hvort honum finnist rétt að forsetinn gefi úrásarvíkingunum heilbrigðisvottorð eftir fund i London 2006 þar sem meðal annars voru þeir Hannes Smárason, Jón Ásgeirs Jóhannesson, og Sigurður Einarsson.

Ég erfi það ekki við forseta Íslands þótt hann hafi hrifist með og talið sér skylt að telja öðrum trú um að íslenskir athafnamenn gætu fært veröldinni eitthvað sem hún hafði aldrei orði vitni að áður. Verra að hann skyldi trúa því sjálfur í blindni. Hann hefur sér það til málsbóta að vera ekki hagfræðingur frekar en seðlabankastjórinn sem menn kjósa að kenna um ástandið. Ég geri ekki athugasemdir við trú manna.

Kjarnafjölskyldan okkar, ég og eiginmaður minn, börnin okkar þrjú og sjö barnabörn, höfum ekki tekið þátt í þeim dansi sem nú hefur breyst í hrunadans. Við stækkuðum ekki við okkur húsnæði, við tókum ekki lán til neyslu og við reyndum að leggja áherslu á önnur gildi en þau sem tilvitnanirnar hér að ofan hvíla á. Nú stefnir hins vegar í að við, þessi litla kjarnafjölskylda, verðum skuldsett til langrar framtíðar. Við þurfum samanlagt að greiða á bilinu 40 til 80 milljónir króna á næstu mörgum árum vegna óreiðumannanna "íslensku athafnamannanna" ef hlaupatíkur þeirra stjórnmálamennirnir sem nú eru við völd fá vilja sínum framgengt og láta okkur greiða skuldbindingar þeirra hér og þar um heiminn. Fimm til tólf milljónir á hvert mannsbarn er reikningurinn að mati hagfræðinga. Þetta ætla ríkisstjórnarflokkarnir að leggja á okkur þótt helstu lagaspekingar landsins hafi fært gild rök fyrir því að ríkinu beri ekki skylda til að greiða reikninginn. Núverandi stjórnvöldum ber að leggja fram frumvarp á Alþingi til að staðfesta vald sitt með lögum því öðru vísi geta þeir ekki lagt á okkur barnaskatt útrásarinnar. Það er hér sem forseti Íslands kemur sterkur inn, forsetinn sem neitaði fjölmiðlalögunum staðfestingar, forsetinn sem svo oft hefur talað fallega til æsku landsins og framtíðarinnar. Nú er komið að Ólafi Ragnari Grímssyni að nota vald sitt í þágu almennings. Hann dró ekki af sér þegar hann gekk erinda athafnamannanna. Nú á hann þess kost að rétta af lýðræðishallann og standa með þjóðinni með því að beita valdi sínu og neita að samþykkja lögin sem eru í farvatninu og leyfa þjóðinni að segja álit sitt. Minna má það ekki vera. Ef þjóðin vill greiða 10 milljóna króna reikning á mann til næstu tuttugu ára vegna bankanna þá er það þjóðarinnar ákveða, en hún verður að fá að segja sitt. Fjölmiðlalögin eru í þessu sambandi hjóm eitt.
Ólína