Fara í efni

NÚ SKAL RÆÐA SPAKLEGA!

Þakkir til þín Ögmundur fyrir að hafa staðið í lappirnar vegna Grímsstaðamálsins. Of margir fengu slæmsku í hnén vegna þess arna - það er ekki góður sjúkdómur, allra síst hjá þeim sem þurfa að standa í lappirnar þegar stórir karlar berja að dyrum. Heiður á hún Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður fyrir sinn skerf og ég held að ég hafi heyrt Jóhann Hauksson taka myndarlega á málinu. Svo virðist sem fréttamenn séu loksins að ranka við sér og átta sig á að í besta falli er á ferli nakinn keisari. Nú verða stjórnvöld að taka við sér og láta kanna málið allt ofan í kjölinn. Að baki eru vítin í tugatali; víti til varnaðar af öllu tagi, þar sem þjóðinni var talin trú um að allt væri í lagi; bankastofnanir, fyrirtæki og hverskonar félög sem reyndust svo vitleysan ein. Nefndir hafa skoðað aftur í tímann en krafa fólks er að ekki síður verði litið fram á veginn og bulli og vitleysum rutt til hliðar. Það er öruggt að krafa kemur upp um að þetta Grímsstaðamál sem hefur valdið sundrungu og óvissu verði rannsakað. Nýjustu fréttir benda til hugur þeirra sem stefna á landvinninga á Hólsfjöllum leiti nú til strandar þar eystra. Um það mál er allt á huldu og allsendis óvíst hvort þar er um annað að ræða en spilaborg. Hins vegar eru þetta slík stórmál að ekki verður hjá því komist að ráðamenn tylli sér á þúfu og hefji spaklega, opna umræðu. Þar er horft til þín minn ágæti.
Níels Árni Lund