Fara í efni

NÚ SKRÍÐA BRASKARA-ÖFLIN FRAM

Sæll Ögmundur, svona fór þetta þá, hvers vegna ríkisstjórnin lét ekki setja saman áróðurskver til að dreifa inn á hvert heimili í landinu, n.k. „Hvítri bók" hefði verið æskilegt. Leyfi ég mér að nefna gærdaginn „Svartasta dag íslenskrar stjórnmálasögu". Erfiðasta hlutverk nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi var sett undir mælistiku í þingkosningunum í gær. Furðulegt má það vera að tiltektarstarfið eftir frjálshyggjupartíð virðist einskis vera metið. Aldrei áður hefur nokkur ríkisstjórn á Íslandi orðið fyrir jafnmiklum erfiðleikum og ríkisstjórn Jóhönnu og fall hennar er mikið eftir óvægan áróður. Nú geta braskara- og spillingaröflin skriðið fram úr skúmaskotum sínum í skjól íhaldsflokkanna tveggja og hafið sinn dans kringum gullkálfinn að nýju með tilheyrandi brambolti. Sjálfsagt verður velferðarkerfið sem að mestu tókst að verja á árunum 2009-2013 brotið niður og taumlaus einkagróðavæðing innleidd.
Sjálfsagt geta Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn glaðst með Ólafi Ragnari að tekist hafi að grafa undan ríkisstjórn Jóhönnu, m.a. með Icesavemálinu, nauðaómerkilegu áróðursmáli sem virðist hafa verið vendipunkturinn og banabiti vinstri ríkisstjórnarinnar. Spurning er hvort Ólafur Ragnar sé ekki fyrir nokkrum misserum verið gildur flokkslimur Framsóknarflokksins?
Samvinna milli hans og Sigmundar Davíðs virðist vera nokkuð augljós þegar öllu er á botninn hvolft. Margir telja Ólaf Ragnar vera slóttugasta pólitíska refinn í íslenskri pólitík sem nú er uppi. Hann hefur gert Bessastaði að n.k. tilraunastöð með þróun stjórnmálavalds á Íslandi.
Í mínum huga er mikil eftirsjá að þeirri ríkisstjórn sem lagði allt í sölurnar til að bjarga því sem bjarga mátti eftir bankahrunið. Með fremur óljósum og þokukenndum stjórnmálamarkmiðum tókst Sigmundi Davíð það sem engum hefur tekist, sjálfsagt með aðstoð vinar síns á Bessastöðum. Hvernig hann hyggst efna kosningaloforðin sín er ekki gott að átta sig á, en það verður hans höfuðverkur.
Ekki er ósennilegt að ef honum verður hált á hinu pólitíska svelli sem ekki er ólíklegt, muni Sigmundur kalla yfir sig nýja „Búsáhaldasbyltingu" en án mín, ég verð smám saman of gamall í svona hasar. Með þeirri von að þrátt fyrir allt leynist ljósglæta einhvers staðar. Mig langar til að þakka þér fyrir óeigingjörn störf í þágu allra landsmanna.
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ

(Eins og sjá má er bréfið skrifað daginn eftir kosningar og hefði þurft að birtast þá en stendur enn fyrir sínu. ÖJ)