Fara í efni

NÝI ALÞÝÐU-FLOKKURINN?

Sæll Ögmundur !
Ég sé að þú ert einn þeirra sem saknar flokksmálgagna (pistill um Styrmi) og vilt þau frekar en fjölmiðla sem villa á sér heimildir og eru meira og minna leppar fyrir ákveðin valdaöfl eða skoðanir án þess að gangast við því. Ég get verið því sammála ef ekki er í boði almennileg gagnrýnin og óháð fjölmiðlun. Skortur á slíku er að mínu mati eitt stærsta þjóðfélagsmein okkar í dag. Dagblaðið rífur kjaft en það er ekki tekið nógu mikið mark á því.
En er þetta ekki eins með stjórnmálin og flokkana? Á ekki að gera kröfu til þess að flokkar komi heiðarlega fram og gangist við raunverulegri stefnu sinni og fyrir hverju þeir berjast. Hverjum þjónar t.d. Sjálfstæðisflokkurinn í reynd með einkagróða- og skattalækkunarstefnu sinni? Er það almenningur í landinu eða fámenn klíka auðmanna? Af hverju ber ekki Samfylkingin einfaldlega rétt nafn og heitir Alþýðuflokkurinn úr því hún er meira og minna komin úr felum með gömlu áherslur kratanna í Evrópumálum, hernaðarmálum, fjandskapinn við íslenskan landbúnað og dekur við þá auðmenn sem eru upp á kant við Sjálfstæðisflokkinn? Þið Vinstri græn eruð þó a.m.k. sæmilega heiðarleg í því að þykjast ekki vera eitthvað annað en þið eruð. Um Framsókn og þá hjá Frjálslyndum er nú erfitt að segja meðan þeir virðast ekki vita sjálfir hvað þeir vilja eða hvert þeir eru að koma eða fara. En mér finnst mikilvægt að þessir þrír alvöru flokkar í landinu, vinstri græningjar sem eina stjórnarandstaðan og svo ríkisstjórnarflokkarnir séu heiðarlegir í þessu.
Annars velti ég því oft fyrir mér hvort ekki verði að stofna almennilegan verkalýðsflokk eða flokk sem berst fyrir okkur þessu venjulega fólki. Best væri að Jóhanna kæmi til ykkar og þessir fáu verkalýðskratar sem eftir eru í Samfylkingunni. Þau eru eins og í álögum í Samfylkingu Össurar og Ingibjargar sem Guðni hefur réttilega kallað flokk fyrir elítuna sem ekki finnur sig í Sjálfstæðisflokknum. Hefur þú trú á að það geti orðið einhver breyting á þessu?
Guðmundur S.

Þakka þér béfið Guðmundur. Ég er sannfærður um að félagslega þenkjandi fólk sem kaus Samfylkinguna er með vaxandi efasemdir um hana. Þetta fólk horfir með undrun á aðfarirnar gagnvart heilbrigðiskerfinu, erindrekstur fyrir NATÓ og hernaðarhyggjuna að ógleymdum árásunum á landbúnaðinn. Ég hef heyrt forsvarsmnenn launafólks í matvælaiðnaði sem kaus Samfylkinguna senda henni tóninn. Þú segir að nær væri að Samfylkingin tæki upp nafn Alþýðflokksins. Þó verð ég að trúa þér fyrir því að einhver harðasta gagnrýni sem ég hef heyrt að undanförnu á Samfylkinguna hefur einmitt komið frá gömlum verkalýðs- og velferðarsinnum úr gamala Alþýðflokknum! Þannig að ég held að nafnið yrði þá að vera NÝI ALÞÝÐUFLOKKURINN að hætti Tony Blair og félaga sem alltaf bættu NÝI fyrir framan öll gömul heiti og var það skirskotun í að nú væri frjálshyggjan komin á dagskrá.
Með kv.
Ögmundur