ÓÁBYRGT VINDHANATAL?
Háttvirtur þingmaður Ögmundur.
Þér ætti að vera kunnugt um það að embættið sem þú tókst þátt í að setja á koppinn hefur yfirheyrt bankamenn í tugavís auk fleiri aðila og á eftir að yfirheyra fjöldann allann í viðbót. Ákærur í einföldustu málunum eru í undirbúningi. Þetta veit háttvirtur þingmaður. Flækjustigið í máli þessa fólks sem réðist með ofbeldi á vinnustað þinn, er nú talsvert minna en í hrunsmálum þeim sem eru til rannsóknar. Endurskoðendur og lögfræðingar á snærum bankamannanna sjálfra höfðu nægan tíma til þess að taka til eftir sig í bönkunum. Þeir sjálfir sátu síðan í marga mánuði eftir hrun og tóku til á vettvangi glæpsins. Þessar staðreyndir sýna svart á hvítu hversu erfitt það er og verður að draga þessa menn til saka. Að kynda undir óábyrgu tali með því að bera þessi mál saman er í sjálfu sér ekki ólíkt vinstri grænum en stenst því miður enga skoðun. Það gerir lítið úr réttarríkinu og dæmir fólkið sem talar á þennan veg sem skilningslausa og óábyrga vindhana.
Virðingarfyllst,
Runólfur
Ég er ekki að gera lítið úr erfiðleikum við rannsóknina á fjármálaglæpum - það var alla vega ekki það sem fyrir mér vakti - og ég er heldur ekki að gera lítið úr ofbeldi af neinu tagi. Ég er einfaldlega að segja nákvæmlega það sem stendur í pistli mínum og ekkert annað. Margt var sagt og gert frá haustinu 2008 og á fyrstu mánuðum ársins 2009, sem betur hefði verið ósagt eða látið ógert. Á þessum tíma hvatti ég til þess að að við einbeittum okkur að því að bæta tjón þess starfsfólks sem varð fyrir barðinu á ólátum og ofbeldi og reyna eftir fremsta megni að stuðla að friðsamlegri framkomu. Ég segi í pistli mínum að ég telji - alla vega voni - að þeir sem hlut áttu að máli, séu sama sinnis og ég í þessu efni.
Kv. Ögmundur