Fara í efni

ÓFRIÐUR GEGN FÓLKI

Friðarverðlaunin koma í hlut ESB, eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, árið 2012. Medalíuna fá þeir, sem komu í veg fyrir stríð í Mið-Evrópu eftir að hafa lagt álfuna í rúst. En friðurinn er kannski "týndur gripur". Hernaðarbandalag á vegum Evrópu fór með sprengjum gegn Líbíu. Öllum er það í fersku minni. Sprengiflugvélarnar, t.d. þær norsku áttu bækistöðvar á Ítalíu. Og Evrópa lætur sig litlu varða þótt menn drepi og nauðgi í stríðum utan Evrópu.
En gott og vel. Menn berjast ekki þungvopnaðir, nema þá á Balkanskaga undir lok síðustu aldar, og menn berjast dag hvern - innan landamæra Evrópu. Menn berjast á götum úti í Bretlandi, á Spáni, í Portúgal, á Ítalíu, að ekki sé minnst á Grikkland. Menn eru að verjast gegn yfirgangi ráðandi evrópustétt. Ekki beint gegn framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heldur gegn ríkisstjórnunum sem mynda ESB.
Atvinnuleysið í ESB, efnahagsúrræðin, spákaupmennskan, já kapítalisminn í Evrópu, er á góðri leið með að leysa samfélögin í álfunni upp. Í Evrópu geisar stríð innan landamæra ríkjanna, í Evrópu geisar stéttastríð milli þeirra, sem eiga allt og ráða öllu og hinna. Friður og friðarverðlaun fá við þessar aðstæður einkennilegan bjölluhljóm. Hljómar kannski eins og hvinurinn í norskum sprengiflugvélum sem vörpuðu sprengjum á Líbíu til þess svo að greiða al Kaida samtökunum leið. Og Norska nóbelsnefndin? Hún er djók.
Kveðja,
Ólína