ÖGMUNDUR OG OFRÍKI
Pétur ritar hér pistil undir fyrirsögninni "Ögmundur og Andríki." Hann virðist vera fulltrúi vaxandi stuðnings við þröngsýn öfl innan VG sem nú krefjast þess að innan flokksins rúmist aðeins ein rödd. Pétur telur þig "hugrakkan og valdfælinn héra", bersýnilega vegna skoðana þinna í Icesave-málinu og gerir þig að auki að taglhnýtingi Andríkis frjálshyggjumanna. Í þessum ummælum og málatilbúnaði birtast í allri sinni nekt síð-sovéskar aðferðir þar sem ráðist er á þá sem telja sig sjá fleiri en einn lit í regnboganum. En það er hrætt fólk og aumt sem óttast mismunandi skoðanir, leggst þess í stað flatt fyrir ímynduðum foringjum - óttast valdið sem öllum ber þó skilyrðislaust að meðhöndla - ef rétt er með farið - af réttsýni, varfærni og auðmýkt.
Ég vona að félagar í VG fari aftur að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum innan flokksins og rifji upp að saman geta farið lýðræðisleg vinnubrögð og samheldni. Að öðrum kosti mun hreyfingin stöðvast og brátt heyra sögunni til. Látum það ekki gerast.
Helga Þorsteinsdóttir