Ögmundur, slástu með okkur innan ESB!
BSRB á þakkir skildar fyrir að standa að fundinum um drög að þjónustutilskipun ESB, þar sem fulltrúar samtaka evrópskra opinberra starfsmanna kynntu viðhorf sín. Mér finnst hins vegar upplýsingar þeirra undirstrika enn frekar nauðsyn þess að menn einsog Ögmundur sláist í lið með okkur Evrópusinnum, taki upp baráttuna fyrir að ganga þar inn, til að við getum læst okkur þar saman í sameiginlegri baráttu gegn ýmsu miður góðu sem þar er á ferð. Ég trúi því nefnilega í hjarta mínu að það sé ekki erfitt að breyta Evrópusambandinu í átt að auknu lýðræði, og í átt að vinsamlegri stefnu gagnvart þróunarríkjunum. Viðskiptafrelsi þeirra inn á svæði ESB tel ég vera bestu aðferðina til að hjálpa þeim til að brjótast til bjargálna. Ég treysti mér til að fara langt í að breyta sambandinu í þá átt ef ég hef vaska baráttumenn einsog eiganda þessarar heimasíðu, Ögmund Jónasson, í liðinu. "If you can´t beat them from the outside, beat them from the inside," sagði LBJ. Ögmundur ætti að hugsa um það.
Ég er algerlega sammála Ögmundi og þeim Carolu Fittsbach-Pyttler og Ann-Marie Perret, að þjónustutilskipunin einsog þær skýrðu hana, er óferjandi og óalandi. Fyrir mig, sem hef af mikilli sannfæringu og einlægni barist harkalega gegn því misrétti sem erlendar einkareknar starfsmannaleigur hafa fært bæði erlendum verkamönnum á þeirra vegum, sem og innlendum, þá er það skelfileg tilhugsun að tilskipunin verði samþykkt óbreytt. Því er haldið fram að þá gætu fyrirtæki selt þjónustu sína milli landa með þeim hætti, að þau gætu flutt starfsmenn sína úr láglaunalöndum til verka í öðru landi. Lög þess lands, þar sem fyrirtækið hefur heimilisfesti, eiga þá að gilda. Það getur varla þýtt annað en að í reynd verði innlendu og erlendu launafólki att saman í bullandi samkeppni þar sem vinnuafl þess sem býr og starfar í heimalandinu getur aldrei keppt við lág laun og bágan rétt þess vinnuafls sem fylgir þjónustufyrirtækinu tímabundið. Þetta brýtur því niður burðarása velferðarsamfélags okkar með tvennum hætti: Í fyrsta lagi flytur þetta inn í velferðarsamfélagið fólk sem fær lægri laun og nýtur lakari réttinda en launamenn í heimalandinu. Samkeppnin mun því miður valda því að munurinn myndi minnka, og laun og réttindi heimafólksins lækka. Þarmeð yrði að litlu gerður ávinningur áratuga baráttu skipulagðrar verkalýðshreyfingar. Í öðru lagi dregur þetta skjótt úr skatttekjum sem þarf að afla til að standa undir velferðinni.
Við vinir BSRB í Samfylkingunni munum að sjálfsögðu skera upp herör gegn þessu af ofangreindum ástæðum. Ég held hins vegar ekki að sú áhersla sem þær stöllur lögðu á að samþykkt tilskipunarinnar myndi hafa áhrif á t.d. hjúkrun og umönnum. Ástæðan er sú að ég þykist hafa vissu fyrir að tilskipunin eigi ekki að hafa áhrif á þessa þætti þar sem þeir eru þegar hluti af opinberu velferðarkerfi, sem ríkið greiðir af. Það breytir ekki hinu að ég og við róttækir jafnaðarmenn í Samfylkingunni eigum fullkomna samstöðu með BSRB í andófi gegn þessari tilskipun.
Ég ítreka það hins vegar að það er fullkomlega rökrétt að menn sem andæfa ESB einsog Ögmundur ættu að berjast fyrir aðild Íslands að sambandinu, vegna þess að innan ESB fengju þeir tækifæri til að láta til sín taka og hafa áhrif gegn því sem þeim þykir verst. Ég hef setið með Ögmundi í þingmannanefnd EFTA árum saman, og veit hvers hann er megnugur þegar hann byrjar að röfla á móti einhverju. Ég tala nú ekki um þegar við leggjum saman.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar.