Fara í efni

KÓRÓNA LANDSINS

Heill og sæll.
Þú hefur beðið mig um að senda þér nokkrar ljóðlínur, sem ég fór með á fundi í Hafnarfirði á dögunum.
Þær eru hluti af ljóðinu “Kóróna landsins” sem er aðallega tileinkað Vatnajökli, sem ég hef verið að reyna að kynna fyrir fólki síðastliðin sex ár sem langdýrmætasta fyrirbæri Íslands og þess vegna væri það arfaslæmt hervirki að sökkva ómetanlegum sköpunarverkum jökulsins í aur í Hjalladal allt upp til jökulsins sjálfs. Nú hefur þetta mat mitt á Vatnajökli verið staðfest í alþjóðlegri útnefningu Íslands sem eins af sjö undrum veraldar á grundvelli hins einstæða samblands elds og íss sem á sér miðju í Vatnajökli.

Í þessu ljóði er farið í flugferð upp jökulfljótin á Norðausturlandi, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal, sem nú er verið að afmá af yfirborði jarðar. Farið er og stiklað yfir eldfjallasvæðið norður af Vatnajökli sem á sér engan líka í heiminum, yfir Herðubreið, einstæðan stapa sem varð til í samskonar eldgosi undir ísaldarjökli og eldgosinu í Gjálp, - yfir Öskju þar sem tunglfarar komu 1967 og Rudloff og Knebel hurfu 1907 og síðan hefur verið reimt, - þar næst yfir Kverkfjöll þar sem m. a. rennur volg á í íshelli. Að lokum er farið snöggt yfir Þingvelli, Heklu, Kverkfjöll og Öskju og niðurstaðan dregin saman.

Hér kemur þetta í heild. Mestur hluti ljóðsins er fluttur í laginu “Kóróna landsins” á diskinum “Ómar lands og þjóðar” frá árslokum 2003.

 KÓRÓNA LANDSINS.

Svíf ég af sæ
mót suðrænum blæ
upp gljúfranna göng
gegn flúðanna söng.
Þar færir hver foss
fegurðarhnoss
og ljúfasta ljóð
um land mitt og þjóð.

Allvíða leynist á Fróni þau firn
sem finnast ekki´í öðrum löndum:
Einstæðar dyngjur og gígar og gjár
með glampandi eldanna bröndum.
Við vitum ekki´enn að við eigum í raun
auðlind í hraunum og söndum,
sléttum og vinjum og auðnum og ám
og afskekktum sæbröttum ströndum.

Því Guð okkur gaf
gnægð sinni af
í sérhverri sveit
sælunnar reit.

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís
fjötruð í jökulsins skalla
uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís,
öskunni spjó og lét falla.
Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís, - 
svo frábær er sköpunin snjalla.
Dýrleg á sléttunni draumfögur rís
drottning íslenskra fjalla.

Að sjá slíkan tind
speglast í lind
og blómskrúðið bjart
við brunahraun svart.

Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:
Eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.

Höll íss og eims, -
upphaf vors heims, -
djúp dularmögn,
dauði og þögn.

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð, -
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við jökul með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð
við eldsmiðju darraðardansins.
Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð,
djásnið í kórónu landsins.

Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð.

Á Þingvöllum aðskiljast álfurnar tvær.
Við Heklu´er sem himinninn bláni.
Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Í Öskju er jarðneskur máni.
Ísland er dýrgripur alls mannkynsins
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði né smáni.

Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt,
heiðloftið blátt,
fegurðin ein
eilíf og hrein.

Með bestu kveðjum.
Ómar.