Fara í efni

OPINBERIR OPINBERA SIG

Í vikunni hækkaði velferðarráðherra laun forstjóra Landspítalans um nærri hálfa milljón á mánuði. Ef marka má fjölmiðla var rótin að þessari aðgerði sú að forstjórinn gat að eigin sögn fengið meiri pening fyrir vinnu sína annarsstaðar og ráðherrann vildi sýna þá snerpu að kippa þessu í liðinn með því að jafna besta boð erlendis frá. Þetta kom mörgum spánskt fyrir sjónir enda minnir þetta á launamál Kaupþingsbankastjóra fyrir hrun sem vísuðu til gylliboða erlendis frá sem rökstuðning fyrir því að starfa á ofurlaunum hérlendis. En forstjórinn og ráðherrann létu ekki taka sig í bólinu og reiddu fram skýringar sem sýndu að launahækkunin var í raun réttlætismál. Forstjórinn nefndi til mikilvægi þess að hann viðhéldi faglegri læknisgetu sinni með því að sinna sjúklingum. Þá kom fram að forstjórinn sinnti lækningum eftir hádegi einn dag í viku og tæki sömu sjúklinga í viðtöl fyrir og eftir. Forstjórinn benti á að vinnuveitandi hans hefði ekki greitt fyrir þessi læknisverk og ráðherrann tiltók að það væri réttlætismál fyrir ríkið að greiða fyrir veitta þjónustu og þar með féll allt í ljúfa löð. Sem skattgreiðanda finnst mér þetta þó ekki sjálfgefið. Er forstjórinn ekki bæði í fullu starfi og á fullum launum hjá ríkinu? Er það vaninn hjá ríkinu að menn telji til aukaverk utan starfslýsingar og fá greitt fyrir þau sérstaklega og haldi fullum launum á meðan? Þykir þetta bara í lagi? Í þessu tilviki kom fram að forstjórinn er u.þ.b. einn dag í viku í öðrum verkum en forstjóraverkum (ca. 80% af dagvinnu) og sendir reikning á vinnuveitanda sinn vegna þess. Úr því að menn eru farnir að telja vinnu sína niður á dagparta, er þá ekki réttlætismál að lækka forstjóralaunin að sama skapi? Það væri eðlilegri útfærsla á þessu. Það sem þetta sýnir er þó fyrst og fremst að þeir sem sitja næst kjötkötlunum skara eld að eigin köku á meðan þeir velta byrðunum á aðra. Synd að forstjórinn og ráðherrann hafi opinberað sig svo berlega í því efni því þeir virðast báðir hafa lagt mikið upp úr að sýnast betri menn.
Vigfús