Fara í efni

ORÐIN ÞREYTT Á AÐ BÍÐA

Sæll Ögmundur.
Ég var nú búin að ákveða að hætta að fylgjast með fréttum í byrjun mars þar sem einhæf framboðsumræða er ekki spennandi. En ég get ekki annað en fylgst með, það sem þú skrifar um fundinn á Húsavík 26. mars er alveg.... Hvað ANNAÐ á að gera í atvinnumálum Norðlendinga?? Við í Mývatnssveit erum búin að bíða þess að þetta "eithvað annað" komist á legg síðan Kiseliðjunni var lokað en það gerist ekkert. Ég veit ekki til þess að formaður ykkar hafi látið sjá sig hér frekar en aðrir stjórnmálamenn síðustu 2 árin. Það eru aðgerðir til aðstoðar á Vestförðum vegna svarts ásdands í atvinnumálum en hlutfallslega voru það miklu fleiri sem misstu lífsviðurværi sitt þegar Kiseliðjunni var lokað. Er ekki tími til kominn að fólkið á staðnum fái að ráða um atvinnu - uppbyggingu í sínu nágrenni.
Unnur Sig.

Þakka þér fyrir bréfið Unnur. Ég er þér algerlega ósammála. Það náttúrlega gerist ekkert ef menn einsetja sér að bíða eftir álveri eða einhverju öðru. Sem betur fer hafa menn ekki beðið. Á Húsavík búa 2400 manns eða þar um bil. Þar er ekki atvinnuleysi heldur komnir um eitt hundrað aðkomumenn til starfa. Nýr atvinnurekstur er að hasla sér völl í verslun og þjónustu, ferðaiðnaði og matvælaframleiðslu og er ég sannfærður um að þarna eru miklir sóknarmöguleikar, ég tala nú ekki um ef þessi framleiðsluiðnaður fengi þó ekki væri nema örlítið brot af þeim stuðningi sem stóriðjan fær. Lengi vel mátti ekki tala um að bandaríski herinn færi frá Suðurnesjum og horfðu mrenn til tekna af hernum og atvinnu Íslendinga. Þegar fólk síðan átti ekki annarra kosta völ en losa sig undan þeirri þráhyggju að allt færi á verri veg við brotthvarf hersins var sem allt losnaði úr álögum. Ný atvinnutækifæri sköpuðust og voru sköpuð. Mjög mikil umræða og gerjun er nú um atvinnuuppbyggingu á Suðrnesjum, margar hugmyndir uppi og enn annað komið í framkvæmd. Sannast sagna finnst mér þessi álhyggja vera af svipuðum toga og hræðslan við að missa af hernum. Ég verð að játa að mér finnst uppbygging stóriðju við Húsavík - einhvejum fegursta stað á jarðríki - ekki spennandi kostur. Ég held að þarna væri hægt að gera stórkostlega hluti til dæmis í fullvinnslu matvæla og í heilsutengdri ferðaþjónustu. Og ef nýta á orkuna, hvers vegna ekki kanna vilja microsaft eða google að reisa gagnabanka á Húsavík með tilheyrandi störfum í þekkingariðnaði? Má ekki bjóða fulltrúum slíkra fyrirtækja til Húsavíkur eins og forsvarsmönnum Alcoa? Og heldur þú Unnur að uppbygging stóriðju myndi láta annan atvinnurekstur í friði? Auðvitað ekki. Hún myndi valda þennslu, samkeppni um vinnuafl og háum vöxtum sem ryddu öðru á braut eða torvelduðu altént rekstur annarra fyrirtækja. Þess vegna stöndum við frammi fyrir valkostum, einsleitri stóriðju eða fjölbreytni í atvinnureksri.
Með kveðju,
Ögmundur