ÓSANNGJARNIR VEGATOLLAR
Sæll Ögmundur.
Nú get ég ekki lengur orða bundist vegna samgöngumála hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef fyrir nokkru síðan gefið upp alla von um að við hér á höfuðborgarsvæðinu, sem borgum að langmestu fyrir vegakerfi landsins, fáum úrbætur á hættulegustu vegaköflum landsins, þar sem flest dauðaslys verða. Þá er ég að tala um Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Nú eru uppi hugmyndir um að að taka vegtoll af höfuðborgarbúum, sem hafa þó verið nógu góðir til að halda uppi vegakerfi landsins. Höfuðborgarbúar, sem hafa aðeins fengið brot af því sem þeir borga til baka í formi vegaúrbóta hafa sætt sig við óréttlætið en nú hefur óréttlætið náð nýjum hæðum. Til dæmis er áætlaður kostnaður við Sundabraut um 10-20 milljarðar og myndi vegurinn þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað reginhneyksli að Suðurlands- og Vesturlandsvegur skuli ekki hafa verið tvöfaldaðir fyrir löngu síðan. Nei, peningunum hefur verið ráðstafað af landsbyggðaráðherrum sem hafa talið jarðgöng fyrir hvert krummaskuð, vera mikilvægara en mörg mannslíf á hverju ári, sem er fórnarkostnaður þessara stórhættulegu vegakafla. Héðinsfjarðargöng þjóna nokkur hundruð manns á einum afskekktasta stað landsins og kostuðu þau um 12 milljarða. Hver er aftur vegatollurinn þar?? Hver var það aftur sem barði þau í gegnum stjórnkerfið? Var það nokkuð Siglfirðingurinn Kristján Möller? Þessar hugmyndir um vegatolla eru það vitlausasta og ósanngjarnasta sem ég hef heyrt lengi, hvers vegna líta stjórnmálamenn á bifreiðaeigendur á höfuðborgarsvæðinu sem óþrjótandi uppsprettu peninga, sem má blóðmjólka endalaust. Þessi fráleita hugmynd hefur sett líf fólks, sem býr í útjaðri Reykjavíkur, í algjört uppnám! Það máttu bóka, þar sem ég er einn af þeim.
Kveðja, Stefán Þórsson, Kjalarnesi