Fara í efni

PÉTUR OG GRASRÓTIN

Blessaður Ögmundur.
Pétur heldur áfram að ausa yfir þig óhreinindum hér í lesendahorninu, nú síðast undir fyrirsögninni „Alvöruumskipti." Verst þykir mér að þarna er flokksbróðir á ferð og segir það sitt um ástandið innan VG. Þar hafa ýmsir, og þ. á m. Pétur og félagar, gleymt því sem dregið hefur fjölda fólks að hreyfingunni í gegnum tíðina - sem sagt því grundvallaratriði að beita ekki þeim einræðis-aðferðum við stjórn landsins sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa gert. Þar á bæ var vondum málum einfaldlega troðið ofan í kokið á stjórnarmeirihlutanum á Alþingi með góðu eða illu. VG hefur hingað til lagt áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og skoðanafrelsi og gefið lítið fyrir andlega trúarleiðtoga eins og gjarnan hafa átt sterk ítök í öðrum stjórnmálaflokkum, einkum á hægri vængnum. Lýðræðislegar áherslur heimfærir nú Pétur með fyrirlitningu upp á „Ögmundarklanið" eins og hann kýs að nefna „óværuna" í eigin flokki. 

Pétur vill ekki styðjast við lýðræðislega stjórnarhætti, hann kýs flokksræði „hrunverjanna" eins og hann kallar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn með réttu. Hann vill eina samræmda skoðun innan VG. Ekki er það mikil framsýni og ekki hefur Pétur mikið lært af fortíðinni. Ein af orsökum hrunsins var einmitt yfirgangur framkvæmdavaldsins gagnvart stjórnarmeirihluta sínum, sem og stjórnarandstöðunni. Þingmenn VG vöruðu oft við hættunum sem stöfuðu af óheftri markaðshyggju en sjálfumgleði einvaldanna í Stjórnarráðinu og þar með alger skortur á sjálfsgagnrýni gerði þá ónæma fyrir áreiti, þeir voru fyrir löngu orðnir heyrnarlausir þegar að hruninu kom haustið 2008.

En auk þess að vera blindur á öðru um orsakir hrunsins er Pétur mjög þversagnakenndur þegar kemur að öðum flokkum en hans eigin. Gott dæmi þar um er fjálglegt tal hans um örlög Borgarahreyfingarinnar. Þar segir hann: „Þjóðarhreyfingin vann stórsigur og fékk 4 þingmenn kjörna beint úr grasrótinni. Eftir að meirihluti Þjóðarhreyfingarinnar hafði snúið flestum kosningaloforðum sínum á haus tók hann að hreinsa til í eigin flokki. Minni hlutinn, sem hafði viljað standa við kosningaloforðin, var lagður í einelti og sendur á "geðveikrahæli", gerður að samviskufanga." Er þetta ekki einmitt það sem Pétur og félagar vilja gera við það fólk sem hann kýs að kalla „Ögmundarklanið" - fólkið sem vill standa vörð um grunngildi VG, standa við kosningaloforðin og taka tillit til þeirra þúsunda sem studdu flokkinn í síðustu þingkosningum?

Já, það er í besta falli spaugilegt að heyra málsvara flokksforæðisins, félaga Pétur, tala fjálglega um atkvæði Borgarahreyfingarinnar sem komu „beint úr grasrótinni." Grasrót hans er nefnilega algerlega andstæð því hugtaki sem um er rætt. Rót Péturs og félaga er bara ein og hún á að næra vaxandi flokksræði. Ef fram heldur sem horfir í þeim efnum mun VG breytast í fámennan trúarsöfnuð. Af þeim sökum er rétt að flokksræðisarmurinn staðnæmist aðeins - þó ekki væri nema til að hugsa sinn gang.
Helga Þorsteinsdóttir