Fara í efni

Rafmagnsleysi í Bandaríkjunum

Ég hef fylgst með vandræðagangi Banaríkjamanna vegna rafmagnsleysis þar vestra. Augljóst er að þar er verið að reka kerfi á fullum afköstum og gott betur. Flestar veitur eru einkareknar og einungis hugsað að mjólka sem mest út úr þeim handa eigendum. Peningar til uppbyggingar er skornir við nögl. Þannig að þegar ein lína eða stöð dettur út, hrinur allt kerfið. Langan tíma tekur að koma á rafmagni að nýju, bæði vegna fjölda veitna, ágreinings og yfirálags á kerfinu. Er þetta ekki eitthvað til að læra af fyrir okkur Íslendinga? Eru nýju raforkulögin ekki orðin úrelt áður en þau taka gildi?
Rúnar Sveinbjörnsson

Heill og sæll Rúnar. Ég er hjartanlega sammála þér. Auðvitað eigum við að læra af mistökum annarra. Sú ríkisstjórn sem hér situr leitar hins vegar uppi allar mistakasmiðjur heimsins, ekki til að læra af mistökunum heldur til að leita fyrirmynda! Tæknivæddasta ríki heimsins, Bandaríkin, stendur á brauðfótum þegar almannaþjónustan er annars vegar. Auðvitað eigum við að láta einkavætt rekstraformið þar á bæ verða okkur víti til varnaðar í nýrri löggjöf hér á landi.
Kveðja,Ögmundur